3. júní 2024
Nokkr­um vegum lokað í kvöld

Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi um allt land næstu daga. Stefnt er á lokun tveggja fjallvega í kvöld vegna veðurs enda spáð snjókomu.

Öxnadalsheiði verður lokað í kvöld, mánudaginn 3. júní. Mokstursbíll verður á ferðinni snemma í fyrramálið til að hreinsa snjó en nýjar upplýsingar um opnun vegarins verða birtar á umferdin.is.

Veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi  verður lokað klukkan 20. í kvöld. Vegurinn verður hreinsaður í fyrramálið og nýjar upplýsingar veittar vegfarendum á umferdin.is klukkan 9:00.

Víkurskarði verður lokað klukkan 20:00 í kvöld og staðan tekin í fyrramálið.

Á Suðausturlandi verður leiðinni milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs lokað klukkan 21:00 í kvöld og staðan endurmetin í fyrramálið.

Fleiri lokanir eru ekki áætlaðar að svo stöddu en nokkrir vegir eru á óvissustigi og því mikilvægt að fylgjast vel með upplýsingum á umferdin.is. Mjög vindasamt verður á leiðinni frá Markarfljóti og austur á firði og hviður þvert á vegi. Því er afar varhugavert að vera á ferðinni á stærri bílum.

Eftirlit með vegum verður aukið þessa daga sem veðrið gengur yfir. Vaktstöð Vegagerðarinnar er á vakt allan sólarhringinn og fylgist vel með þróun mála í góðu samstarfi við almannavarnir og Veðurstofu Íslands.

Vegfarendur eru beðnir um að vera ekki á ferðinni á Norðurlandi í kvöld og nótt nema brýna nauðsyn krefji. Almennt eru ferðalangar hvattir til að vera frekar á ferðinni yfir daginn. Meiri þjónusta er á þeim tíma á svæðum þar sem líkur eru á hálku eða snjó.

Fljótt skipast veður í lofti og áætlanir geta því breyst. Því er mikilvægt að skoða ávallt vel færðarkort Vegagerðarinnar á umferdin.is áður en lagt er af stað.