Vegagerðin hefur auglýst útboðið: Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar. Í því felst nýbygging Vestfjarðarvegar á um 3,6 km kafla og bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Verkið er einn áfangi af mörgum í uppbyggingu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, milli Skálaness og Bjarkarlundar, en framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu ár. Einn áfanganna er vegagerð um Teigsskóg og er vinna við hann langt kominn. Þar hefur undanfarið verið unnið að því að leggja bundið slitlag en stefnt er að því að opna veginn fyrir umferð í lok októbermánaðar. Þar með verður hægt að leggja af fjallveginn um Hjallaháls sem er í 336 metra hæð.
Einnig er nú unnið að því að leggja bundið slitlag á nýjan veg, um sex kílómetra leið milli Hallsteinsnes og Djúpadals um austanverðan Djúpafjörð. Sá vegur mun tímabundið gegna hlutverki Vestfjarðarvegar eða þangað til hægt verður að ljúka síðustu áföngunum sem felast í þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar.
Fyrsta skrefið í því var útboð sem var auglýst föstudaginn 8. september síðastliðinn. Þá voru boðnar út fyllingar yfir firðina tvo, gerð vinnuplana og bygging 119 metra langrar bráðabirgðabrúar yfir hluta Gufufjarðar. Þessar framkvæmdir eru nauðsynlegur undirbúningur fyrir næsta útboð sem verður bygging brúa yfir þessa tvo firði. Vinnu við verkið skal ljúka í lok september árið 2025.
Ekki hefur verið staðfest hvenær næsti áfangi verður boðinn út en í drögum að samgönguáætlun er miðað við að byggingu brúanna verði lokið árið 2027. Þangað til þurfa vegfarendur að aka um Ódrjúgsháls.
Framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar eru einnig hluti af uppbyggingu Vestfjarðarvegar. Þar eru framkvæmdir langt komnar en áætlað er að klæða veginn austan við nýju brúna á næstu dögum. Þá er unnið að því að keyra út styrktarlagi að vestanverðu og tengja þannig nýja veginn vestan megin við brúna. Þá er eftir frágangur og uppsetning vegriða en vonast er til að vegurinn yfir Þorskafjörð verði opnaður fyrir umferð síðar á þessu ári. Þar með styttist Vestfjarðarvegur um tæpa 10 kílómetra.
Heildarstytting vegarins, þegar öllum framkvæmdum við Vestfjarðarveg, milli Skálaness og Bjarkarlundar, verður lokið, er um 22 km.