Vegagerðin stendur fyrir áhugaverðum morgunfundi, fimmtudaginn 20. mars kl. 9:00-10:30, þar sem vegagerð í skugga eldsumbrota verður til umfjöllunar. Farið verður yfir hvernig nýr vegur er lagður yfir nýrunnið hraun og hvernig er að reka vegi á eldgosasvæði. Fjallað verður um aðkomu Vegagerðarinnar að framkvæmdum við varnargarða og sagt frá kortlagningu á sprungum og holrýmum undir Grindavík. Morgunfundurinn verður haldinn í húsnæði Vegagerðarinnar í Garðabæ, Suðurhrauni 3, og er öllum opinn. Heitt verður á könnunni. Fundurinn verður einnig í beinu streymi.
Grindavíkurvegur undir hrauni.
Jarðskjálftar og eldgos hafa sett mikinn svip á starfsemi Vegagerðarinnar undanfarin misseri. Frá því að jarðhræringar hófust í Grindavík í nóvember 2023 hefur Vegagerðin sinnt margs konar verkefnum í og við bæinn. Vegagerð yfir hraun, viðgerðir á vegum, aukin vetrarþjónusta, kortlagning á sprungum og holrýmum undir bænum og aðkoma að byggingu varnargarða eru á meðal helstu verkefna. Farið verður yfir þessi málefni á morgunfundinum.
Dagskráin:
Opnun fundar: Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Vegagerð og varnargarðar – Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri á mannvirkjasviði hjá Vegagerðinni.
Hvernig er nýr vegur lagður yfir nýrunnið hraun? Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Rekstur á vegum á eldgosasvæði – Valgarður Guðmundsson, sérfræðingur á þjónustudeild hjá Vegagerðinni.
Kortlagning sprungna í Grindavík – Friðrik Halldórsson, rannsóknarmaður á stoðdeild hjá Vegagerðinni.
Framtíðarsýn – Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.
Í lokin verða spurningar og umræður.
Hér fyrir neðan er hlekkur á streymið:
Hraun rann yfir Grindavíkurveg.
Frá Grindavíkurvegi.
Nesvegur vestan Grindavíkur - vegurinn fór í sundur.
Grindavík 11.11.2023