Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er haldinn sunnudaginn 17. nóvember. Þetta er í fjórtánda sinn sem minningardagurinn er haldinn á Íslandi. Í ár er kastljósi dagsins beint að hættunni sem getur skapast á að sofna eða dotta undir stýri vegna þreytu ökumanna. Á hverju ári verða mörg alvarleg slys, þ.m.t. banaslys, sem rakin eru beint til þess. Gögn frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa og Samgöngustofu sýna að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni. Alvarleg slys vegna svefns og þreytu undir stýri voru sérstaklega mörg í fyrra, 21 alvarlegt slys og eitt banaslys. Svefn og þreyta var því orsök í rúmlega 9% skráðra tilvika um alvarlegt slys eða banaslys.
Táknrænar minningarstundir verða haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni. Minningarathöfn verður haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 14. Öllum er velkomið að taka þátt í athöfninni og að venju verður einnar mínútu þögn sem landsmenn eru hvattir til að taka þátt í. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, flytja ávörp og þá munu þau Lína Þóra Friðbertsdóttir og Jón Sigmundsson segja frá sárri reynslu sinni eftir umferðarslys.
Sambærilegar minningarathafnir verða haldnar á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar víðs vegar um landið. Þar verður dagskrá á vegum eininga Landsbjargar og kveikt á kertum til minningar um fólk sem látist hefur í umferðinni eða slasast alvarlega. Þau sem ekki komast eru hvött til að kveikja á kertum heima við.
Landsmenn eru hvattir til að sýna á þessum degi viðeigandi hluttekningu og leiða hugann að þeirri ábyrgð sem við öll berum í umferðinni.
Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðum á minningardaginn kl. 14:00.
Rík hefð er fyrir því hér á landi að færa á þessum degi starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.
Þreyta er stórhættulegt ástand við akstur. Til að fyrirbyggja syfju og þreytu ökumanns er gott að við höfum eftirfarandi í huga:
Ef allt þetta þrýtur þ.e. ef syfja og þreyta nær yfirhöndinni skal:
Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hafa 1.624 látist í umferðinni á Íslandi (til og með 15. nóvember 2024). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum. Það sem af er þessu ári (2024) hafa 13 einstaklingar látið lífið í umferðinni hér á landi. Það er fimm fleiri en allt árið 2023 þegar 8 einstaklingar létust. Árið 2022 létust 9 einstaklingar.
Undanfarin tíu ár (2014-2023) létust að meðaltali 11,2 í umferðinni á hverju ári. Tíu ár þar á undan (2004-2013) létust að meðaltali 16,1 á ári í umferðinni hér á landi.
Alvarleg slys og banaslys vegna svefns og þreytu undir stýri voru sérstaklega mörg í fyrra. Alls varð eitt banaslys og 21 slasaðist alvarlega vegna slysa sem reka mátti til svefns. Því til viðbótar varð annað banaslys þar sem líklegt er talið að ökumaður hafi sofnað en það var ekki hægt að staðfesta. Meðfylgjandi mynd sýnir tölur úr slysaskrá Samgöngustofu.
Að baki minningardeginum standa innviðaráðuneytið, Samgöngustofa, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan, Vegagerðin og ÖBÍ réttindasamtök.