Fjölmargar skriður hafa fallið á vegi á Vestfjörðum síðasta sólarhringinn. Jarðvegur er blautur og laus í sér eftir mikið vatnsveður. Vegurinn um Ísafjarðardjúp hefur verið lokaður í dag en unnið að viðgerð. Líkur eru á að fleiri skriður falli á næstu klukkutímum og vegfarendur því beðnir um að fara afar varlega og fylgjast vel með á www.umferdin.is en þar koma inn upplýsingar um hættur og lokanir vega.
Starfsfólk Vegagerðarinnar hafa haft í nógu að snúast síðasta sólarhringinn við að fylgjast með aðstæðum á vegum, sér í lagi á Vestfjörðum þar sem ástandið er sýnu verst eftir miklar rigningar.
Vaktstöð Vegagerðarinnar hefur tekið saman helstu viðburði sem taldir eru upp hér að neðan:
Mánudaginn 11. nóvember varaði Veðurstofa Íslands við aukinni hættu á aurskriðum en fyrir lágu gular viðvaranir vegna veðurs. Fyrsta tilkynning um skriðu barst klukkan 15:30 þegar lítil skriða féll við Barðastrandaveg við Neðri Arnórsstaði en skriðan náði þó ekki inn á veg. Um kvöldmatarleytið varð vart við grjóthrun úr Súðavíkurhlíð.
Klukkan 21 tilkynnti lögregla um aurskriðu við gangamunna Dýrafjarðarganga. Vegurinn lokaði stutta stund en var opnaður fljótlega aftur. Um klukkutíma síðar kom tilkynning frá vegfaranda um mikinn vatnselg í Hestfirði en þá var farið að brotna úr veginum. Um nóttina tilkynnti lögregla svo um skriðu á Hnífsdalsvegi.
Í morgun, þriðjudag, mátti sjá að tvær skriður höfðu lokað veginum í Hestfirði. Um klukkan 7:30 í morgun tilkynnti bílstjóri póstflutningabifreiðar að í Svínadal á Dynjandisheiði hefði runnið úr bakka, aur og grjót væri á vegi og vatn flæddi niður eftir veginum. Mikil umferð flutningabíla var á veginum á þessum tíma.
Um klukkan 10 lokaðist vegur um Langadalsströnd eftir að hann fór í sundur en einnig hafði vegurinn um Trostansfjörð farið í sundur. Lokunarhlið var sett upp á Dynjandisheiði til að loka fyrir umferð á leið til Bíldudals á svipuðum tíma.
Vatn hefur flætt yfir veginn í Ísafirði í Ísafjarðardjúpi og talsverðar skemmdir eru á veginum við Eyrargil þar sem vatnið hefur grafið sig undir veginn.
Um ellefuleytið fréttist af því að klæðing væri fokin upp að hluta við Stafá á Siglufjarðarvegi.
Um hádegisbil var tilkynnt um tvær nýjar skriður við Hnífsdalsveg sem fylltu rásina við veginn. Upp úr hádegi var enn tilkynnt um grjót sem fallið hafði á veg úr Súðavíkurhlíð. Það var svo um þrjúleytið sem stór skriða féll við Eyrarhlíð, milli Hnífsdals og Ísafjarðar.
Líkur eru á fleiri skriðum og vegfarendur því beðnir um að fylgjast með veðri og færð. Starfsfólk Vegagerðarinnar er með stöðugt eftirlit með vegunum en líklega tekur nokkra daga að ná utan um allar skemmdir sem hafa orðið. Verktakar á vegum Vegagerðarinnar eru að störfum til að halda vegum opnum þar sem því er við komið.