Það hefur verið mikið að gera hjá starfsfólki Vegagerðarinnar sem svarar í upplýsingasímann 1777. Þangað sækja landsmenn mikið þegar það er ótíð líkt og verið hefur undanfarnar vikur. Á einum degi í lok febrúar bárust t.d. 1.649 símtöl og þann dag svaraði einn starfsmaður alls 375 símtölum sem verður að teljast ansi mikið.
Þetta var þann 28. febrúar en þann mánuð bárust ríflega 18.000 símtöl til umferðarþjónustunnar sem er meira en tvöfalt fleiri en í janúar sem þó voru mörg miðað við venjubundið árferði, eða rétt um 7.300. Í mars hafa nú borist 4.229 símtöl þegar mánuðurinn er u.þ.b. hálfnaður.
Til að fræðast betur um starfsemi umferðarþjónustunnar og upplýsingasímans 1777 má horfa á myndbandið hér fyrir neðan en Vegagerðin lét gera myndina fyrr í vetur.