Aldrei áður hefur meiri umferð mælst á Hringveginum en árið 2022, met ársins 2019 var slegið. Umferðin í fyrra reyndist einu og hálfu prósenti meiri en árið 2019. Mun minna var ekið í desember 2022 en árið áður og helgast líklega af veðuraðstæðum.
Milli mánaða 2021 og 2022
Ekki alveg óvænt, reyndist umferð í nýliðnum desember tæplega 3% minni en í sama mánuði árið 2021, svo ekki var slegið met í umferðinni þennan mánuðinn. Má trúlega rekja þennan samdrátt að mestu til slæmrar færðar.
Samdráttur varð á öllum landssvæðum utan Vesturlands en þar jókst umferðin um 2,8%, miðað við sama mánuð 2021. Mest dróst umferð saman um Austurland eða um 7,5%.
Af einstaka talningarstöðum reyndist mesti samdrátturinn vera um Geitháls, í nágrenni höfuðborgarsvæðis, eða tæplega 10% samdráttur en mest jókst umferð við Hafnarfjall eða um 15%. Það er eftirtektarvert að sjá svo miklar sveiflur í umferð í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem alla jafna ríkir meiri stöðugleiki en lengra úti á landi.