Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,3 prósent í ágúst miðað við ágúst í fyrra. Þetta er mesta mælda umferð í ágústmánuði en umferðarmesti mánuður hingað til var júní síðastliðinn. Útlit er fyrir að umferðin í ár aukist um 4,5 prósent sem myndi leiða til umferðarmesta árs frá því mælingar hófust og met frá árinu 2019 yrði slegið.
Milli mánaða
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,3%, í nýliðnum ágúst, miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi aukning varð til þess að nýtt met var sett í ágústumferð um höfuðborgarsvæðið, en fyrra met var frá síðasta ári.
Alls fóru rúmlega 180 þúsund ökutæki um sniðin þrjú á hverjum degi í ágúst. Umferðarmesti mánuður, frá upphafi mælinga, er júní sl. með rúmlega 187 þúsund (ökutæki á sólarhring).
Mælisnið á Vesturlandsvegi og á Reykjanesbraut sýndu sömu aukningu eða um 3,1% hvort snið, en mælisnið á Hafnarfjarðarvegi sýndi tæplega 4% samdrátt miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Mesta umferðin mældist um mælisnið á Reykjanesbraut með tæplega 69 þúsund ökutæki á sólarhring en minnst var umferðin yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða tæplega 45 þúsund ökutæki á sólarhring.
Frá áramótum
Það sem af er ári, hefur umferðin, um mælisniðin þrjú, aukist um 5%, miðað við sama tímabil á síðasta ári. Aldrei áður hefur umferðin verið meiri, miðað við árstíma.
Umferð eftir vikudögum
Í nýliðnum ágúst reyndist umferðin meiri á mánudögum til fimmtudaga, en minni frá föstudögum til sunnudaga, miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Mest var ekið á miðvikudögum og fimmtudögum, en minnst á laugardögum og sunnudögum.
Umferð jókst hlutfallslega mest á miðvikudögum, eða um 5% en dróst saman um 6,3% á laugardögum, miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Horfur út árið
Nú stefnir í að umferðin, árið 2023, geti aukist um 4,5% miðað við árið 2022. Gangi sú spá eftir mun gamla umferðarmetið, frá árinu 2019, verða slegið. Skv. vísitöluriti, talnaefnis, var umferðarvísitalan, árið 2019 = 145,02 stig en stefnir nú í 150,91 stig eða rétt rúmlega 4% aukningu frá fyrra meti.