Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum september jókst um 2,6 prósent frá sama mánuði fyrir ári. Umferðin frá áramótum hefur aukist um nærri fimm prósent. Nú hafa 17 milljón ökutæki farið um mælisniðin frá áramótum, eða 800 þúsund fleiri en á sama tíma fyrir ári.
Umferð milli mánaða 2022 og 2023
Umferðin, yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, jókst um 2,6% í nýliðnum september mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári.
Mest jókst umferðin yfir mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg, eða um 3,4% en minnst um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk, eða um 1,5%.
Frá áramótum
Nú hefur umferðin aukist um 4,7% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári, samkvæmt þessari samantekt.
Aldrei áður hafa farið jafn mörg ökutæki, um mælisniðin þrjú í heild, frá áramótum eins og nú. Til að setja þessi hlutföll og breytingar í samhengi við fjölda ökutækja þá fóru rétt rúmlega 17 milljónir ökutækja um mælisniðin þrjú, frá janúar til septemberloka, miðað við 16,2 milljónir ökutækja fyrir sama tímabil á síðasta ári.
Umferð eftir vikudögum
Á höfuðborgarsvæðinu er sólarhringsumferðin, um stofnvegkerfi Vegagerðarinnar, ætíð meiri á virkum dögum en um helgar og á því var engin breyting, í síðasta mánuði. Mest var ekið á föstudögum og minnst á sunnudögum.
Séu niðurstöður vikudaga, nýliðins september mánaðar, bornar saman við sömu vikudaga sama mánaðar, á síðasta ári, þá jókst umferðin í öllum vikudögum og hlutfallslega mest á mánudögum, eða um 5,4%, en minnst jókst umferðin milli föstudaga eða um 1,3%.
Horfur út árið 2023
Hegði umferðin sér líkt og í meðalári, það sem eftir lifir árs, er líklegt að heildaraukning um þessi þrjú lykil mælisnið verði í kringum 4,5%, þegar árið verður gert upp og borið saman við síðasta ár.