Vegna mikillar aðsóknar verður málþingið „Hringnum lokað – 50 ár frá opnun Hringvegar“ sem haldið er í tilefni af fimmtíu ára afmæli Skeiðarárbrúar og Hringvegar, fært yfir í félagsheimilið Hofgarð að Hofi í Öræfasveit.
Föstudaginn 30. ágúst munu Vegagerðin og Sveitarfélagið Hornafjörður efna til málþings og hátíðardaskrár í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá opnun Hringvegarins með vígslu Skeiðarárbrúar.
Málþingið Hringnum lokað – fimmtíu ár frá opnun Hringvegar, fer fram í félagsheimilinu Hofgörðum að Hofi í Öræfum klukkan 13:00 til 15:00 en gestum málþingsins verður boðið upp á kjötsúpu milli klukkan 11:30 og 12:30. Síðan tekur við hátíðardagskrá við vesturenda Skeiðarárbrúar klukkan 15:30.
Vegna mikils áhuga á málþinginu þarf að færa það í stærra húsnæði en upphaflega stóð til að halda það í Freysnesi.
Fundarstjóri: Borgþór Arngrímsson.
Því miður fellur erindi Þórodds Bjarnasonar um samgöngubætur og byggðaþróun niður af óhjákvæmilegum ástæðum.
Aðgangur að málþinginu er ókeypis og öll velkomin en skráning fer fram hér: https://forms.office.com/e/W3BuJcrZnH
Líkt og við vígslu brúarinnar árið 1974 verður ýmislegt gert til skemmtunar. Flutt verða stutt ávörp, Öræfingakórinn syngur, lúðrasveit Hornafjarðar spilar og klifurfélag Öræfinga sýnir listir sínar í brúnni.
Listakonurnar Eva Bjarnadóttir og Hanna Dís Whitehead skreyta brúna með litríkum veifum í tilefni dagsins. 50 veifur, ein fyrir hvert ár.