Tekin hefur verið ákvörðun um að framlengja lokun hellis sem fannst í Mývatnssveit vorið 2023. Hellirinn verður lokaður í sex mánuði til viðbótar eða til 19. apríl 2025 og tekur framlengingin gildi 19. október nk.
Umhverfisstofnun telur nauðsynlegt að hellirinn verði áfram lokaður meðan unnið er að friðlýsingu hans til að tryggja verndun útfellinga í hellinum til frambúðar. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur nú staðfest ákvörðun stofnunarinnar en samráð var haft við hagsmunaaðila þegar ljóst var að þörf væri á framlengingu lokunarinnar.
Meðan á lokuninni stendur getur Umhverfisstofnun veitt leyfi fyrir ferðum sem tengjast frekari könnun hans og rannsóknum á honum, en öll önnur umferð verður óheimil. Þá er stofnuninni heimilt að opna svæðið fyrr ef stofnunin metur sem svo að það sé fýsilegt og að ekki verði lengur talin hætta á skemmdum.
Lokunin er samkvæmt 25. gr. a laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.
Tengt efni: