6. júní 2024
LOKI kolefn­isreikn­ir – upptökur af erind­um

Vegagerðin hefur látið þróa og smíða kolefnisreikni fyrir innviðaframkvæmdir á hönnunarstigi sem hefur fengið nafnið LOKI sem stendur fyrir lífsferilsgreining og kolefnisspor innviðaframkvæmda. Með LOKA er hægt að meta kolefnisspor framkvæmda með samræmdum og einföldum hætti. LOKI var kynntur á hádegisfundi Vegagerðarinnar 4. júní síðastliðinn.

Vegagerðin ákvað 2022 að leggja í þá vegferð að meta heildstætt kolefnisspor allra sinna framkvæmda til að geta með markvissum hætti farið í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verkfræðistofan EFLA var fengin til að þróa kolefnisreikni í samvinnu við Vegagerðina sem er fyrsti reiknir sinnar tegundar á landinu, með því markmiði að auka þekkingu og skilning á kolefnisspori framkvæmda og í framhaldinu lækka kolefnissporið.

Páll Valdimar Kolka Jónsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Vegagerðinni, kynnti reikninn á hádegisfundinum 4. júní. Þar fór hann yfir tilurð og helstu virkni LOKA. Upptöku af erindi hans má sjá hér að neðan.

Uppbygging kolefnisreiknisins LOKA og notkun

LOKI er reiknir byggður upp í töflureikni sem auðveldar og samræmir gerð lífsferilsgreininga fyrir innviðaframkvæmdir. Hann er gerður að norrænni fyrirmynd og aðlagaður að innlendum forsendum. LOKI kolefnisreiknir notar magntölur úr hönnun samgöngumannvirkja og byggir á verkþáttaskrá Vegagerðarinnar. Í reikninum eru losunarstuðlar sem endurspegla íslenskar aðstæður. Hægt er að aðlaga reikninn eftir þeim hráefnum sem notuð eru og því hægt að meta áhrif af; t.d. steypu sem hefur lægra hlutfall af sementi og þ.a.l. lægra kolefnisspor, endurnýtingu á efni við framkvæmdir, t.d. malbiki og jarðefnum, nýtingartíma mannvirkja og möguleika til viðhalds og endurnýtingar og fleiri þátta, á kolefnisspor yfir líftíma mannvirkisins. Hægt er að nota LOKA á öllum stigum hönnunar en nákvæmni reikninganna eykst því nær framkvæmd er komið.

Fyrsta útgáfa LOKA nær yfir framleiðslu hráefna og flutning á verkstað, framkvæmdina sjálfa og stærra viðhald á líftíma mannvirkisins. LOKI mun svo á næstu árum þróast áfram til að ná yfir fleiri þætti og í takt við breytingar í stuðlum, orkugjöfum og hráefnum.  Í næstu útgáfu LOKA verður t.d. mögulegt að þróa leiðir til að taka inn allt viðhald á líftíma, losun vegna þjónustu og reksturs og ná yfir breytingar í orkunotkun og magni á meðan framkvæmd stendur.

Magnús Arason, verkfræðingur hjá EFLU verkfræðistofu, fjallaði um þróun vefsins. Upptöku af erindi hans má sjá hér að neðan.

Aðgerðir

Með samræmdri aðferðafræði við lífsferilsgreiningar er hægt að bera saman mismunandi útfærslur innan framkvæmdar og á milli framkvæmda. Þetta gefur tækifæri til markvissari markmiðasetningar og aðgerða til að draga úr innbyggðu kolefnisspori samgönguframkvæmda.

Einar Óskarsson, verkfræðingur á hönnunardeild Vegagerðarinnar, flutti erindi á hádegisfundinum 4. júní um sína reynslu af notkun LOKA. Upptöku af erindinu má sjá hér að neðan.

Næstu skref

Stefnt er að því að nýta LOKA við hönnun allra framkvæmda á samgönguáætlun allt frá frumdrögum til verkhönnunar. Einnig verður LOKI aðgengilegur öllum sem áhuga hafa á og nýtist vonandi öðrum framkvæmdaraðilum, annað hvort beint eða sem innblástur og grunnur að sínum lífsferilsgreiningum.

Með þessari metnaðarfullu vinnu við kolefnisreikni innviða axlar Vegagerðin ábyrgð á því að breyta starfsháttum til að uppfylla áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnar um að draga úr kolefnislosun og sjálfstæðu landsmarkmiði um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005.