Vegagerðin vekur athygli á að gular veðurviðvaranir taka gildi á morgun, sunnudaginn 8. janúar, fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og Norðurland eystra. Búast má við snjókomu, skafrenningi og blindu víða á vegum á þessum svæðum og því ekkert ferðaveður.
Einnig eru líkur á að snjóflóðahætta skapist á vegum á utanverðum Tröllaskaga og á Súðavíkurhlíð.
Líklega verður færð á vegum afar erfið og jafnvel ófært víða á morgun, sunnudag og fram eftir mánudegi, gangi veðurspár eftir. Vegagerðin hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni á þessum svæðum á meðan veður gengur yfir. Aðilar í ferðaþjónustu eru hvattir til að miðla upplýsingum til ferðamanna.
Á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar www.umferdin.is er alltaf hægt að nálgast nýjustu upplýsingar um færð á vegum.