6. nóvember 2024
Land­fyll­ingar og sjóvarn­ir vegna Foss­vogs­brúar í útboð

Fossvogsbrú er fyrsta stóra framkvæmdin í Borgarlínuverkefninu en um er að ræða 270 m langa brú sem verður allt að 17 m breið. Hún tengir saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavíkur með afgerandi hætti. Tilkoma brúarinnar verður bylting fyrir þau sem kjósa vistvæna samgöngukosti á svæðinu, ásamt því að stytta ferðalengdir og stuðla að því að draga úr umferðarálagi á vegum.  Vegagerðin hefur nú boðið út gerð landfyllinga og sjóvarna vegna nýbyggingar brúarinnar.

Borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjóri Kópavogs segja Fossvogsbrú mikilvægan áfanga í að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu en gert er ráð fyrir að um 10 þúsund manns muni ferðast daglega um brúna. Fossvogsbrú er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.   

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur: „Þetta er mikilvægur áfangi í samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu. Fossvogsbrú mun tengja sveitarfélögin og létta mjög á umferð allt frá Hafnarfirði og inn í Reykjavík.“ 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs: „Fossvogsbrúin er mikilvæg tenging inn á vestanvert Kársnesið og því mikið hagsmunamál fyrir Kópavog. Með tilkomu Fossvogsbrúar er verið að tengja Kópavogsbúa nær stærstu vinnustöðum landsins, við háskóla og framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að 10.000 manns muni ferðast daglega um brúna frá Kópavogi og nærliggjandi sveitarfélögum. Ábatinn er því mikill fyrir höfuðborgarsvæðið allt.” 

Útboð vegna Fossvogsbrúar   

Vegagerðin hefur boðið út gerð landfyllinga og sjóvarna vegna nýbyggingar brúar yfir Fossvog fyrir hönd Betri samgangna. Verkið er hluti af 1. lotu Borgarlínu og uppbyggingu fyrir þróunarsvæði í Skerjafirði. Áætlað er að vinna við landfyllingar hefjist með vorinu 2025 á Kársnesi og í framhaldinu Reykjavíkurmegin. Verklok eru áætluð á árinu 2026. Stefnt er að því að bjóða út byggingu brúar og vegagerð að loknu landfyllingarútboði. 

Útboðið markar formlega upphafið að framkvæmdum vegna byggingar Fossvogsbrúar, sem er ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum, auk forgangsaksturs lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs.  

Um útboðið:  

Gera skal landfyllingar báðum megin Fossvogs. Reykjavíkurmegin felur verkið í sér gerð um 2 hektara landfyllingar og 740 metra langra sjóvarna utan við núverandi strandlínu frá Skerjafirði í norðvestri að Kýrhamri í norðaustri. Á Kársnesi felur verkið í sér gerð um 0,3 hektara landfyllingar utan við núverandi strandlínu með 220 m af nýrri sjóvörn ásamt um 0,4 hektara fyllingum á landi. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. 

Verkinu skal að fullu lokið 1. nóvember 2026.  

Útboðið er auglýst á hinu evrópska efnahagssvæði (EES). Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign frá og með miðvikudeginum 6. nóvember 2024 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 10. desember 2024. 

Ekki verður haldinn sérstakur opnunarfundur en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um nöfn bjóðenda í útboðinu og heildartilboðsupphæð.  

Sjá nánar hér.

Boðið verður til kynningarfundar í HR kl. 13.00 og í framhaldinu vettvangsferðar vegna útboðsins miðvikudaginn 20. nóvember 2024.  

Markmið Samgöngusáttmálans er að styrkja samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og vinna að nauðsynlegum loftslagsmarkmiðum, meðal annars með tilkomu Borgarlínu og stórefldum almenningssamgöngum og uppbyggingu innviða eins og Fossvogsbrúar.