27. maí 2022
Kort­leggja vara­sama hvið­ustaði

Gerð vindhviðu kortaþekju fyrir helstu þjóðvegi er yfirskrift lokaskýrslu eftir Einar Sveinbjörnsson og Svein Gauta Einarsson hjá Veðurvaktinni ehf. Verkefnið var styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Markmið rannsóknarinnar var að útbúa hnitsett kerfi upplýsinga um varasama hviðustaði. Fyrir um 10 árum voru skráðar lýsingar á vindafari og veðuraðstæðum á þekktum hviðustöðum ásamt því að staðirnir voru hnitsettir með hjálp starfsmanna Vegagerðarinnar. Í þessu rannsóknarverkefni var kortlagning tekin áfram, stöðum bætt við og lýsing á staðháttum og veðri endurskoðuð fyrir fyrri staði.

Samtals voru 86 hviðustaðir kortlagðir. Við skráninguna var gerð sú krafa að á viðkomandi stað væri þekkt að ökutæki eða vagnar hefðu fokið út af eða lent í öðrum vandræðum vegna vinds. Í sumum tilvikum er klæðing að flettast af að auki. Stundum á hálka eða skafrenningur hlut að máli. Gerð var rík krafa um að vandræði skapist vegna þess að vindurinn sé byljóttur. Nokkrum köflum er sleppt þar sem hvasst verður í tiltekinni vindátt, en jafnvindi einkennandi. Reykjanesbraut í hvassri SA-átt er dæmi um slíkan kafla.

Með hviðuþekjunni er til reiðu hnitsett kerfi upplýsinga fyrir 86 skilgreinda varasama hviðustaði eða vegkafla. Með hverjum þeirra fylgir lýsing og einkennandi vindátt eða vindáttir í lofti. Í raun er afrakstur þessarar rannsóknar kortaþekja sem getur hæglega gagnast með öðrum kortum eða stafrænum upplýsingakerfum fyrir þjóðvegi landsins.

Verið er að þróa hviðuspár fyrir þessa staði út frá spám um grunnvind og þekktum hviðustuðlum. Óvissubil verður því minna þar sem byggt er á vindmælingum, en vindmælar eru til staðar á 29 þessara 86 hviðustaða.

10 algengustu vindhviðustaðirnir

Hér á eftir kemur listi yfir þá tíu staði þar sem hviður eru algengastar yfir allt árið miðað við þröskuldinn 35,0 m/s. Unnið var út frá öllum mælingum frá 2011-2020. Tíðnin er jafndreifð niður á mánuði, en eðlilega er hún alla jafna hæst yfir vetrarmánuðina.

  1. Hvammur 1,39%
  2. Hafnarfjall 1,38%
  3. Vatnsskarð eystra 1,22%
  4. Stafá 1,22%
  5. Hraunsmúli 1,22%
  6. Sandfell 1,14%
  7. Hamarsfjörður 1,11%
  8. Kjalarnes 1,02%
  9. Hafursfell 0,91%
  10. Steinar 0,78%

Hvammur (1)

A og ASA-átt

Vindur verður afar byljóttur á stuttum kafla, verst þó rétt framan við bæinn Hvamm. Vindáttin er skáhalt eða nokkuð samsíða veginum, en sviptivindar geta komið beggja vegna á hlið eftir akstursstefnunni. Hvergi mælist hærri tíðni hviðuveðurs en á þessum stað.

Grundarhverfi/Blikdalsá (Hafnarfjall) (1)

SA- og A-átt

Kafli á utanverðu Kjalarnesi frá Grundarhverfi og að Blikdalsá, þar sem veðurstöðin stendur. Þarna magnast vindur af skörpum fjallsbrúnum vestanvert við Blikdalinn. Bílar hafa fokið út af á nokkrum stöðum, einkum í hvassri SA-átt. Fylgir oft Hafnarfjalli, en hviðuveður er ekki eins algengt og þar. Utantil á Kjalarnesi virðist sem að vindhraði í lofti þurfi að komast yfir hærri þröskuld svo af hljótist verulegt misvindi.

Vatnsskarð eystra (94)

ANA-átt / VNV-átt

Á Vatnsskarði eystra er einn alræmdasti hviðustaður landsins. Vindurinn er þvingaður um skarðið ýmist úr ANA eða úr VNV. ANA-vindáttin er algengari og mun skeinuhættari. Hviðurnar fylgja stormum og eru algengari að vetrarlagi. Kemur þó fyrir á sumrin, einkum V-áttin.

Stafá (76)

S- og SV-átt

Stuttur kafli á Siglufjarðarvegi beggja vegna við ræsi þar sem Stafá rennur undir veginn. Brattur múlinn vestan við Stafárdal magnar upp harða hnúta. Í hvassri SV-átt, hefur klæðing ítrekað fokið af veginum. Algengt og hviður eru einna tíðastar við Stafá.

Staðarsveit (Hraunsmúli) (54)

N-átt

Langur kafli, um 12-15 km í Staðarsveit þar sem hnútarnir standa af fjöllunum víðast þvert á veg. Mjög þekktur fokstaður og hviðuveður tíð á öllum árstímum. Versti kaflinn frá því skammt austan Hraunsmúla vestur fyrir vegamót Útnesvegar.

Sandfell og Hof (1)

A- og ANA-átt

Mikill óveðurskafli, einkum í A- og ANA-átt. Einnig þegar vindurinn er NA-stæður í verstu veðrum. Hviðurnar koma oftast þvert á veginn hjá Sandfelli og þar eru glögg skil á milli gróins lands og örfoka sands. Kaflinn er nánast samfelldur austur fyrir Hof. Þar er skýlla, en upp brekkuna og beygjuna til austurs koma hnútar og getur þá tekið nokkuð snögglega í stýri ökumanna.

Hamarsfjörður (1)

NV-átt

Um 4 km kafli frá botni og um norðanverðan Hamarsfjörð. Á honum mest öllum verður snarvitlaust veður í N- og NV-átt og bílar hafa oft fokið út af veginum. Mikil fjallaköst og koma hnútarnir ekki síður af hafi eða úr suðvestri. Þarna mælast einna hæstu gildi vindhviða við vegi landsins.

Kjalarnes (1)

N-og NNA-átt

Einn versti hviðustaður landsins þar sem fok er algengt. Í N- og NNA-átt koma miklir hnútar ofan Kerhólakambs. Mest kveður að hviðum á veginum í beygjunni upp úr Kollafirði á um 900 m kafla. Vindurinn stendur nokkurn veginn þvert á akstursstefnu. Aðeins utar, þ.e. til móts við Esjuberg ber einnig á hviðum í N-átt, en sjaldan eins slæmt, þó fok ökutækja og aftanívagna þekkist þar einnig.

Hafursfell (54)

ANA og A-átt

Kafli vestan undir Hafursfelli að Stóru Þúfu. Strengurinn stendur ofan af Hafursfelli og eins meðfram bröttu fjallinu. Strangt til tekið eru þetta tveir staðir á veginum, annars vegar undir Hafursfelli á bletti til móts við Hólsland og hins vegar heldur vestar á milli Miklaholtssels og Stóru Þúfu. Bílar hafa ítrekað fokið þarna út af.

Steinar (1)

NA- og ANA-átt

Nokkuð langur kafli á þjóðveginum frá því skammt vestan Steinabæja austur að vegamótum niður að Eyvindarhólum. Illviðri þarna verða frekar í NA-átt og fara því ekki alltaf saman við hviðuveður í A-átt vestar undir Eyjafjöllum. Vindurinn blæs þarna skáhalt á veginn. Nokkuð algengt, en verst að haust- og vetrarlagi. Vindmælirinn við Steina gefur ekki alltaf rétta mynd af veðurskilyrðum, þar gætir skjóláhrifa eftir því sem vindáttin er norðaustanstæðari á sama tíma og allt ætlar um koll að keyra nokkru austar.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Framkvæmdafrétta 2022.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

Undir Hafnarfjalli verður oft vindasamt.

Undir Hafnarfjalli verður oft vindasamt.