Íslensk rannsókn um forsteyptar einingar í brúargerð sem ætlað er að hraða verkframkvæmdum á verkstað og lækka byggingarkostnað, var kynnt á heimsráðstefnu í jarðskjálftaverkfræði. Verkefnið var styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
Heimsráðstefnan í jarðskjálftaverkfræði var haldin í Mílanó á Ítalíu 30. júní til 5. júlí. Ráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti og fjallar um rannsóknir á sviði jarðskjálftaverkfræði, bæði í jarðtækni og í byggingartækni brúa og hefðbundinna mannvirkja. Um 4.500 manns sóttu ráðstefnuna að þessu sinni.
Ólafur Sveinn Haraldsson, forstöðumaður rannsóknadeildar, og Helgi S. Ólafsson, brúarverkfræðingur á hönnunardeild, voru fulltrúar Vegagerðarinnar og hluti af 15 manna teymi frá Íslandi sem tók þátt í ráðstefnunni.
Á ráðstefnunni kynntu þeir Ólafur og Helgi rannsókn í brúarverkfræði sem fjallar um að nota forsteyptar einingar í brúargerð með það að markmiði að hraða verkframkvæmdum á verkstað, sem gæti einnig lækkað byggingarkostnað. „Verkefnið gengur út á að hraða byggingu brúarstöpla og hefur þróun verkefnis gengið vonum framar. Tækifæri hafa opnast til að þróa aðferðina enn frekar,“ segir Ólafur en fyrir liggur að nota tæknina í brú á Norðurlandi.
Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Háskóla Íslands, BM Vallá og Vistu verkfræðistofu. Þrír nemendur hafa gert lokaverkefni sín í tengslum við rannsóknina en það eru Rúnar Steinn Smárason, byggingartæknifræðingur hjá Vegagerðinni, Franz Sigurjónsson og Ingi Sigurður Ólafsson, byggingarverkfræðingar hjá Eflu verkfræðistofu. „Þeir eiga allan heiðurinn að þróuninni og ljóst að framtíðin er björt í brúarverkfræði,“ segja bæði Ólafur og Helgi.
Næsta heimsráðstefna í jarðskjálftaverkfræði fer fram í Montreal í Kanada árið 2028.