Kostnaðaráætlanir Samgöngusáttmálans hafa hækkað mikið við endurskoðun. Fyrir því liggja mismunandi ástæður. Nefna má að í mörgum tilvikum var upphafleg áætlun miðuð við verkefni sem átti eftir að útfæra mun nánar. Útfærslur hafa leitt til þess að mörg verkefnanna hafa vaxið í umfangi eða breyst.
Kostnaðaráætlanir Samgöngusáttmálans hafa hækkað mikið við endurskoðun. Fyrir því liggja mismunandi ástæður. Nefna má að í mörgum tilvikum var upphafleg áætlun miðuð við verkefni sem átti eftir að útfæra mun nánar. Útfærslur hafa leitt til þess að mörg verkefnanna hafa vaxið í umfangi eða breyst. Má nefna að á Sæbraut var fyrst miðað við mislæg gatnamót við Kleppsmýrarveg en nú er unnið að stokkalausn sem nær yfir um 850 m langan kafla, sem eðli máls samkvæmt er mun dýrari lausn en hefur meiri ávinning. Stokkur bætir umferðaröryggi og aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda á milli hverfa beggja vegna Sæbrautar og greiðir samgöngur fyrir Borgarlínu og Strætó. Útfærslur á Borgarlínunni og göngu- og hjólastígakerfi hafa og vaxið að umfangi.
Uppfærsla Samgöngusáttmálans, sem gerður var milli ríkis og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu haustið 2019 stendur nú yfir. Vegagerðin sér um undirbúning, hönnun og verklegar framkvæmdir sem heyra undir sáttmálann en Betri samgöngur ohf. fara með yfirumsjón og eigendaeftirlit og tryggja fjármögnun.
Verkefni Samgöngusáttmálans voru mörg mjög stutt á veg komin þegar sáttmálinn var undirritaður og þroski áætlana eftir því. Flest verkefnin eru raunar enn á skipulagsstigi þar sem ekki hafa verið teknar ákvarðanir um leiðarval og útfærslur. Eðli málsins samkvæmt eru kostnaðaráætlanir á því stigi háðar mjög mikilli óvissu.
Þau verkefni sáttmálans sem komin voru lengra í þróun og hönnun við undirritun og hafa nú þegar verið framkvæmd hafa staðist áætlanir mjög vel. Ýmsar kostnaðartölur sem fóru inn í sáttmálann 2019 voru byggðar á eldri áætlunum sem höfðu ekki verið uppfærðar í langan tíma, enda í sumum tilvikum ekki komnar til sögunnar grundvallarforsendur þess að uppfæra kostnaðaráætlanir, svo sem ákvörðun um leiðarval og fyrirkomulag í skipulagi sveitarfélaga.
Í þeirri umfjöllum sem fer nú fram eru upplýsingar settar fram með ýmsum hætti og kostnaðartölur oft bornar saman sem innihalda framkvæmdir sem eru alls ólíkar þegar betur er að gáð. Þetta á t.d. við um kostnaðartölur sem nefndar hafa verið um Sæbrautarstokk. Samgöngusáttmálinn gerði einungis ráð fyrir kostnaði við gerð mislægra gatnamóta við Kleppsmýrarveg en nú er verið að skoða 850 m langan stokk og eru þetta því í raun eru gerólíkar framkvæmdir.
Hvað Borgarlínuna varðar þá voru upphaflegar kostnaðaráætlanir byggðar á skilgreiningu þar sem ekki var búið að hanna né útfæra götusniðin og því var mikil óvissa fólgin í þeim áætlunum. Þær hugmyndir sem nú eru uppi um útfærslu Borgarlínunnar eru mun umfangsmeiri en þær hugmyndir sem lagt var af stað með í upphafi auk þess að forsendur fyrri hugmynda um endurbætur á fyrirliggjandi vegum hafa ekki reynst réttar.
Áætlanir um viðbótarhjólastíga og hjólastíga í tengslum við Borgarlínuna hafa tekið miklum breytingum á þeim árum sem liðin eru frá því sáttmálinn var undirritaður. Þannig eru inni í tölunum núna mun umfangsmeira stofnhjólanet og hjólastíganet tengt Borgarlínunni enda hefur mikil fjölgun verið í ferðum hjólandi á síðastliðnum árum.
Eins og fram hefur komið þá voru flestar af þeim fyrirhuguðu framkvæmdum sáttmálans mjög stutt á veg komnar og hugmyndir fólks um það hvaða vinna liggur að baki undirbúningi stórra innviðaframkvæmda heldur óraunhæfar. Að baki stórra innviðaframkvæmda eru langir ferlar sem nauðsynlegt er að fara í gegnum til að uppfylla öll lögbundin skilyrði í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag. Þáttur upplýsingagjafar til íbúa og annarra í tengslum við mat á umhverfisáhrifum og breytingar á skipulagi er þar einnig stór þáttur.
Í raun voru flest verkefni sáttmálans komin það stutt á veg í undirbúningi þegar Samgöngusáttmálinn var undirritaður að heppilegra hefði verið að setja af stað verkefni um undirbúning þeirra, sem í flestum tilfellum er 3-5 ára verkefni þegar um stærstu framkvæmdirnar er að ræða og taka svo umræðuna þegar línur hefðu skýrst og upplýsingar væru handfastari.
Þetta er t.d. gert á vettvangi samgönguáætlunar þar sem unnið er með 5 ára framkvæmdaáætlun en síðan 10 ár í viðbót þar sem unnið er að undirbúningi framkvæmda. Við endurskoðun áætlunar er svo tekin afstaða til þess hvort öll þau verkefni fái framgang og þá hvenær.
Því má ekki gleyma að Samgöngusáttmálinn byggir á samkomulagi um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, þar með talið innviðum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðin til 15 ára, þ.e.a.s. til og með ársins 2033. Markmiðið með sáttmálanum er m.a. að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, stuðla að því að loftlagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnislaust borgarfélag verði náð og stuðla að auknu umferðaröryggi.