Áhugavert myndband með yfirskriftinni „Hvalfjarðargöng – stundum þarf að loka“ var frumsýnt á morgunfundi Vegagerðarinnar um rekstur, þjónustu og vöktun í jarðgöngum þann 18. janúar. Í myndbandinu er farið yfir í hvaða tilvikum þarf að loka fyrir umferð um göngin og hvað gerist þegar bíll bilar í göngunum, en slíkt er nokkuð algengt.
Á Íslandi eru tólf jarðgöng í notkun. Þau elstu eru Arnardalshamar frá árinu 1948 sem eru einungis 30 metra löng, en þau yngstu eru Dýrafjarðargöng sem voru opnuð 2020 og eru 5.600 m löng. Lengstu göngin eru Héðinsfjarðargöng sem eru um 11 km.
Hvalfjarðargöngin eru lang umferðarmestu jarðgöngin á Íslandi en um þau fara að meðaltali um 8.000 bílar á dag allan ársins hring. Göngin voru tekin í notkun árið 1998. Þau eru tæpir 5,8 km að lengd, ýmist með tveimur eða þremur akreinum og hallinn í þeim yfirleitt á bilinu 4-8 %.
Árlega er Hvalfjarðargöngum lokað 270 til 300 sinnum vegna bilana, viðhalds, hreinsunar eða annars. Yfirleitt varir hver lokun þó aðeins stutta stund. Ein af ástæðum þess að loka þarf göngunum er þegar bifreið bilar í þeim. Í myndbandinu er farið yfir hvaða ferli fer af stað ef bíll bilar í Hvalfjarðargöngum.
Þegar ökumenn farartækja verða varir við að eitthvað amar að er mælst til þess að þeir reyni að stoppa í útskoti í göngunum. Ef það tekst ekki á að setja strax á viðvörunarljós, hringja í Neyðarlínuna eða þjónustusíma Vegagerðarinnar og fá nánari leiðbeiningar. Brýnt er að fólk haldi kyrru fyrir í ökutækjum sínum. Ef fólk þarf að stíga út skal halda sig veggmegin við bílinn enda hættulegt að ganga um göngin í mikilli umferð.
Ef ökutæki bilar skal:
Vaktstöð Vegagerðarinnar vaktar Hvalfjarðargöng allan sólarhringinn og getur fylgst vel með í gegnum þær 120 myndavélar sem er að finna í göngunum. Atvikamyndavélakerfi í göngunum lætur vita um leið og eitthvað óvenjulegt gerist í göngunum og starfsfólk fær því tilkynningu frá kerfinu ef bíll stöðvast í göngunum og getur þá gripið til ráðstafana. Göngunum er þá lokað, settar upplýsingar um lokunina á umferdin.is til að vegfarendur viti hvað er um að vera. Næst er kallað eftir aðstoð dráttarbíls svo hægt sé að fjarlægja ökutækið enda kappsmál að geta opnað göngin að nýju fyrir umferð.
Ekki aðeins bilaðir bílar verða til þess að Hvalfjarðargöngunum er lokað. Til dæmis er þeim lokað þegar neyðarfarartæki (t.d. sjúkrabílar og lögreglubílar) þurfa að vera í forgangi. Þar sem aksturshraði í göngunum er 70 km/klst en hraði forgangsbíla oft meiri, er nauðsynlegt að loka göngunum enda hafa neyðarfarartækin takmarkaða sýn til að taka framúr.
Einnig er göngunum lokað ef gangandi eða hjólandi vegfarendur fara inn í Hvalfjarðargöng. Þá lokast göngin sjálfkrafa ef mengun verður of mikil. Einu sinni á ári er göngunum lokað í þrjár nætur í röð. Þá er farið í alþrif á göngunum til að halda loftgæðum góðum, enda safnast mikið ryk saman í þessu lokaða rými. Sömu nætur er nauðsynlegu viðhaldi sinnt.