Vegfarendur og þeir sem eiga pantað flug að morgni gamlársdags eru hvattir til að fylgjast vel með á umferdin.is og flugáætlunum flugfélaga. Búast má við að veður verði slæmt á flestum stöðum á Suður og Suðvesturlandi, þar með talið höfuðborgarsvæðinu. Færð verður þung og mögulega kemur til lokana á vegum.
Vegna hugsanlegra lokana á Reykjanesbraut er Vegagerðin í viðbragðsstöðu og keppst verður við að halda Reykjanesbraut opinni eins mikið og kostur er. Ef til lokunar kemur er líklegt að skoðaður verði fylgdarakstur á rútum milli höfuðborgarsvæðis og flugstöðvar í samráði við Isavia.
Búast má við að veðrið verði verst milli klukkan 3 og 8 á gamlársdagsmorgun. Á Hellisheiði og í Þrengslum getur komið til lokana milli klukkan 6 og 9. Líklega lægir að morgni gamlársdags en einnig má búast við því að færðin geti spillst aðfaranótt nýársdags og fram eftir degi á nýársdag.
Á gamlársdag verður umferðarþjónustan í síma 1777 opin frá klukkan 6.30 til 22:00.
Á nýársdag verður umferðarþjónustan í síma 1777 opin frá klukkan 7:30 til 22:00.
Sólarhringsvakt er á vaktstöðvum Vegagerðarinnar alla daga ársins.