29. júlí 2024
Hring­vegur­inn opinn og viðgerð­ir halda áfram

Hringvegurinn við Skálm var opnaður fyrir umferð á ný skömmu fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Loka þurfti veginum á laugardag vegna jökulhlaups úr Mýrdalsjökli sem rauf í sundur veginn við brúna yfir Skálm. Viðgerðir halda áfram næstu daga og umferð er stýrt um svæðið.

Unnið var að því í allan gærdag að fylla í skarðið sem myndaðist þegar vegurinn rofnaði svo hægt væri að opna fyrir umferð um Hringveginn. Vegurinn austan Skálmar laskaðist töluvert á um 700 metra kafla og er einbreiður eins og er. Brúin yfir Skálm stóð af sér jökulhlaupið en um tíma var óttast að brúin færi í flóðinu.

Næstu daga verður haldið áfram að gera við veginn og koma honum í gott lag en í gær var allt kapp lagt á að koma á vegasambandi svo fólk kæmist leiðar sinnar. Búast má við að nokkrar vikur taki að koma veginum í samt lag.

„Í dag verða frekari lagfæringar undirbúnar. Þar sem vegurinn er einbreiður verður byrjað á að gera sérstakan slóða fyrir vinnuvélar við hlið hans, það er ekki hægt að vera með neina efnisflutninga á Hringveginum. Við förum vonandi langt með það í vikunni að byggja veginn upp á ný en það grófst mikið undan honum að sunnanverðu. Það þarf því að keyra heilmikið efni í veginn. Síðan þarf að fræsa upp allt yfirborðið og leggja nýja klæðingu,“ segir Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri á Suðursvæði Vegagerðarinnar.

Björgunarsveitirnar Víkverji og Kindill hafa stýrt umferð um veginn í dag en í undirbúningi er að koma á ljósastýringu í gagnið.

 

Vegurinn við brúna fór í sundur vegna jökulshlaupsins.

Vegurinn við brúna fór í sundur vegna jökulshlaupsins.

Frá brúnni yfir Skálm.

Frá brúnni yfir Skálm.

Viðgerðir standa yfir.

Viðgerðir standa yfir.

Umferð er stýrt um svæðið.

Umferð er stýrt um svæðið.