Framkvæmdir við verkið Hringvegur (1) um Hornafjörð eru í fullum gangi. Um er að ræða nýja legu Hringvegarins um Hornafjarðarfljót sem mun stytta núverandi Hringveg um 12 kílómetra. Framkvæmdin felur í sér lagningu 19 kílómetra langs þjóðvegar og 9 km af hliðarvegum, byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa auk tveggja áningarstaða.
Verktaki er Ístak og starfa um fimmtíu manns á þeirra vegum við verkið. Tækjakostur er töluverður, eða rúmlega 20 tæki, þar á meðal 6 trukkar (búkollur), 5 gröfur, 2 jarðýtur, veghefill, valtarar, hjólaskóflur, borvagn og harpa auk steypubíla. Framkvæmdir hófust síðsumars árið 2022 en verklok eru áætluð í október á næsta ári, 2025.
Verkþættirnir eru eftirfarandi:
Brú yfir Djúpá
Brúin verður rétt tæpum tveimur kílómetrum sunnan við núverandi brú yfir Djúpá. Hún verður 52 metra löng í tveimur höfum. Brúin er grunduð á niðurreknum steyptum staurum, heildar hæð hverrar staurastæðu er 30 metrar (sjá mynd 1). Hún verður steinsteypt og er svokölluð eftirspennt bitabrú. Akbrautir verða tvisvar 4,5 metrar og hálfs metra kantbitar sitt hvoru megin eða alls 10 metra breið brú. Hliðarhalli brúarinnar kemur til með að vera 3,5% (sjá mynd 2).
Verkstaða í júní 2024: Uppsteypu undirstaða og stöpla er lokið og undirsláttur yfirbyggingar langt kominn. Unnið hefur verið að forsmíði móta sem verið er að flytja á staðinn. Áætlað er að steypa brúargólfið í ágúst.
Nýja brúin yfir Hornafjarðarfljót verður sjö kílómetrum sunnan við núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót. Brúin verður 250 m löng í sex höfum, 35 metra löng endahöf og 45 metra löng millihöf. Vegna jarðvegsgerðar þurfti að fergja brúarstæðið í töluverðan tíma áður en hægt var að byrja framkvæmdir. Grundun brúarinnar byggir á því að reka niður steinteypta járnbenta staura niður á fast (16-20 m) og er þeirri vinnu lokið. Brúin er svokölluð eftirspennt bitabrú og verður brúardekkið steypt í tveimur áföngum. Akbrautir verða tvisvar 4,5 metra breiðar og svo hálfs metra kantbitar hvoru megin eða alls 10 metra breið brú.
Verkstaða í júní 2024: Fergingu er lokið, staurar hafa verið reknir niður, uppsteypu undirstaða og stöpla er lokið, en eystri landstöpull er ósteyptur. Búið er að steypa leiðara undir mót fyrir fyrsta fasa og grauta undir legur. Unnið er í mótum yfirbyggingar, fyrri áfanga. Einnig unnið í járnalögn og að koma fyrir kapalrörum. Áætluð verklok eru um miðjan desember í ár.
Brúin verður 114 metra löng, steypt, eftirspennt bitabrú í þremur höfum, 35 metra endahöf og 44 metra millihafi. Akbrautir verða tvisvar 4,5 metrar og hálfs metra kantbitar sitt hvoru megin eða alls 10 metra breið brú. Brúin er grunduð með niðurreknum steypu staurum að hluta og byggð á landi að hluta.
Verkstaða í júní 2024: Búið er að steypa undirstöður stöpla,millistöpla og vestari landstöpul.Unnið er að fyllingum undir verkpalla. Áætluð verklok eru um miðjan nóvember í ár.
Brúin verður 52 metra löng, steypt, eftirspennt bitabrú í tveimur höfum, 26 metra löngum. Tvíbreið brú og tíu metra breið líkt og hinar brýrnar í verkinu. Brúin verður grunduð á steyptum niðurrekstrarstaurum. Við Bergá eru jarðlög mjög mjúk og gert ráð fyrir töluverðu sigi. Því gert ráð fyrir að fergja svæðið í að minnsta kosti heilt ár.
Verkstaða í júní 2024: Lokið hefur verið við að taka farg af brúarstæði í hæð fyrir niðurrekstur staura og búið að reka niður staura fyrir undirstöður brúarinnar. Einnig er búið að reka niður steypta staura sem undirstöður fyrir mót fyrir yfirbyggingu brúarinnar. Búið er að fergja vegstæðið að brúarstæði Bergár að vestanverðu og á sama tíma að rjúfa fyllingu austan við brúarstæðið og veita ánni þangað. Undirstaða hefur verið steypt. Áætluð verklok eru um miðjan desember í ár.
Vegagerð á svæðinu er almennt á undan áætlun. Búið er að fergja nánast öll vegstæði nema kaflann austan gatnamóta við Höfn. Stefnt er að því að klæða Hringveginn frá stöð 0 að vesturenda Djúpárbrúar í sumar. Einnig verður Djúpárvegur og Brunnhólsvegur klæddir á sama tíma.