19. ágúst 2024
Hringn­um lokað – 50 ár frá opnun Hring­vegar

Skeiðarárbrú, lengsta brú landsins, var vígð í júlí 1974, fyrir fimmtíu árum á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Bygging brúarinnar þótti verkfræðilegt þrekvirki á sínum tíma. Með henni var lokið við Hringveginn sem eftir það tengdi byggðirnar umhverfis Ísland í samfellda heild. Í tilefni af þessum tímamótum standa Vegagerðin og sveitarfélagið Hornafjörður fyrir málþingi og hátíðardagskrá föstudaginn 30. ágúst 2024.

Bygging brúarinnar yfir Skeiðará átti sér langan aðdraganda. Áður höfðu verið byggðar brýr yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi árið 1967 og yfir Hrútá 1968. Öræfasveit var þá komin í vegasamband austan frá. Þar með var einnig þeim áfanga náð að kominn var samfelldur vegur umhverfis landið að undanskildum Skeiðarársandi.

Alþingi samþykkti þingsályktun um undirbúning þess að gera akfært umhverfis landið vorið 1968. Næstu ár var unnið að rannsóknum og mælingum á Skeiðarársandi. Ljóst var að bygging brúar yfir Skeiðará yrði dýr enda þyrfti brúin að vera æði löng til að standa af sér jökulhlaup. Því var brugðið á það ráð að fjármagna brúna að hluta með svokölluðu happdrættisláni. Fyrsta happdrættislánið, að upphæð 100 m.kr., var boðið út í apríl 1972, og seldist það upp á nokkrum dögum. Stóð þá einmitt yfir Skeiðarárhlaup.

Lengsta brú landsins

Brúin þótti verkfræðilegt afrek á sínum tíma enda reist á djúpum sandi yfir síbreytilegan árfarveg sem reglulega varð fyrir jökulhlaupum. Brúin var að auki lengsta brú landsins, 904 metrar, en styttist í 880 metra eftir Skeiðarárhlaupið 1996, þegar hún skemmdist töluvert.

Áður en framkvæmdir gátu hafist á Skeiðarársandi, þurfti að endurbyggja veginn frá Kirkjubæjarklaustri að Núpsstað að mestu leyti auk nokkurra brúa. Einnig var byggður kafli á Hringveginum austan Skeiðarársands milli Skaftafellsár og Virkisár.

Framkvæmdir við veg yfir Skeiðarársand hófust í apríl 1972 við Kirkjubæjarklaustur, svo og austur í Öræfum. Á sjálfum Skeiðarársandi var hafist handa í september 1972. Lögð var áhersla á að nýta vetrartímann til framkvæmda meðan vatn var minnst í jökulánum. Í lok nóvember 1973 var lokið við fyrri hluta brúarinnar yfir Skeiðará. Þá var ánni veitt undir brúna og vegasambandi komið á til bráðabirgða.

 

Umferðin um nýju brúna var eins og á Laugavegi um háannatíma og voru þar komnir bílar úr öllum landsfjórðungum. Mynd: Ímynd

Umferðin um nýju brúna var eins og á Laugavegi um háannatíma og voru þar komnir bílar úr öllum landsfjórðungum. Mynd: Ímynd

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974.  Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar. Mynd/Ímynd

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974. Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar. Mynd/Ímynd

Þjóðhátíð á sandinum

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974.  Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar.

Dagskráin var viðamikil og fjöldi ávarpa voru flutt. Heiðursgestur var herra Kristján Eldjárn, forseti lýðveldisins.

Hátíðahöldin hófust með leik Skólahljómsveitar Kópavogs undir stjórn Björns Guðjónssonar. Þorleifur Pálsson, sýslumaður Skaftafellssýslu setti hátíðina, Magnús Torfi Ólafsson, samgönguráðherra hélt ræðu þar sem hann sagði meðal annars: „Í dag er hringnum lokað, hringveginum sem tengir byggðirnar umhverfis Ísland í samfellda heild svo þar er hvergi leiðarendi lengur á akfærum vegi. […] Síðasta haftinu, sem hamlaði greiðri för með byggðum hringinn í kringum landið, hefur verið rutt úr vegi, og þar með er Ísland orðið annað land og enn betra en það hefur verið fram til þessa.“

Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri fjallaði um framkvæmdina og Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, blessaði brúna og sagði við það tækifæri; „Nú erum vér hér, Skaftfellingar, Íslendingar, við Skeiðará, og erum komnir yfir, höfum lifað það, að allar foráttur undan Vatnajökli eru sigraðar.“ Að því loknu opnaði ráðherra hringveginn formlega.

Umferðin um nýju brúna var eins og á Laugavegi um háannatíma og voru þar komnir bílar úr öllum landsfjórðungum, sagði síðar í frétt Vísis. Í Morgunblaðinu var einnig fjallað um þennan merka atburð og brúin kölluð „afmælisgjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín.“

Síðar þennan dag héldu Austur- og Vestur- Skaftfellingar þjóðhátíð í tjaldi sem sett hafði verið upp við vesturenda brúarinnar.

Veður var fagurt þennan dag, en þó minntu höfuðskepnurnar á sig í miðri ræðu Eysteins Jónssonar, fyrrverandi samgönguráðherra, þegar skall á mikið úrhelli sem dundi á skálanum svo ekki heyrðist mælt orð. Samkomugestir heyrðu því fleygt, að þarna hefðu höfuðskepnurnar viljað minna á sig. Eysteinn lét það ekki á sig fá og mælti; „Í dag  minnumst við þess, að höggvin hefur verið fjötur af þjóðinni.“

Matthías Johannessen, formaður þjóðhátíðarnefndar tók einnig til máls: „Eftir lagningu þessa vegar yfir Skeiðarársand verður Ísland aldrei hið sama og áður. Byggðin þéttist, samskipti fólks aukast, Ísland verður betra land og skilningur manna í ólíkum byggðarlögum og samstarf þeirra á eftir að stóraukast.“

Tók svo við skemmtidagskrá með sögum af vatnaferðum V. Skaftfellinga, kórsöng, reiptogi og lúðrablæstri. Hátíðarhöldum við Skeiðarárbrú lauk með dansleik á palli fram eftir kvöldi.

Lýðrasveit úr Kópavogi spilaði við vígslu Skeiðarárbrúar. Mynd: Ímynd

Lýðrasveit úr Kópavogi spilaði við vígslu Skeiðarárbrúar. Mynd: Ímynd

Heiðursgestur við vígslu nýrrar Skeiðarárbrúar og formlegrar opnunar Hringvegarins var herra Kristján Eldjárn, forseti lýðveldisins. Mynd: Ímynd

Heiðursgestur við vígslu nýrrar Skeiðarárbrúar og formlegrar opnunar Hringvegarins var herra Kristján Eldjárn, forseti lýðveldisins. Mynd: Ímynd

Brú á þurru landi

Skeiðarárbrú þjónaði sínu hlutverki vel allt þar til hún var tekin úr þjóðvegakerfinu árið 2016 enda stóð hún þá orðið á þurru. Eftir umbrot og jökulhlaup áranna á undan hafði Skeiðará breytt farvegi sínum árið 2009 og rann eftir það vestur með jökli í Gígjukvísl sem er vestar en fyrri árfarvegur Skeiðarár. Eftir það rann aðeins Morsá, mun minni jökulá, undir Skeiðarárbrú. Því var ný og mun styttri brú byggð yfir Morsá sem opnuð var árið 2017.

Skemmdir á brúnni yfir Skeiðará eftir eldgos og jökulhlaup árið 1996.

Skemmdir á brúnni yfir Skeiðará eftir eldgos og jökulhlaup árið 1996.

Skeiðarárbrúin stendur nú á þurru og hefur lokið hlutverki sínu. Mynd: Bjarki Jóhannsson

Skeiðarárbrúin stendur nú á þurru og hefur lokið hlutverki sínu. Mynd: Bjarki Jóhannsson

Málþing á Hótel Freysnesi

Málþingið Hringnum lokað – fimmtíu ár frá opnun Hringvegar, fer fram félagsheimilinu Hofgörðum að Hofi í Öræfum klukkan 13:00 til 15:00 föstudaginn 30. ágúst 2024, en boðið verður upp á kjötsúpu milli klukkan 11:30 og 12:30. Þar verður fjallað um byggingu Skeiðarárbrúar og hvaða áhrif þessi samgönguframkvæmd hafði fyrir íbúa í Skaftafellssýslum og landsmenn alla. Aðgangur að málþinginu er ókeypis en skráning fer fram hér: https://forms.office.com/e/W3BuJcrZnH

Dagskrá málþings

11:30-12:30      Boðið verður upp á kjötsúpu á Hótel Freysnesi.

  • Minningar af Skeiðarársandi. Rögnvaldur Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
  • Síbreytilegur Skeiðarársandur, áskoranir í 50 ár. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Vegagerðin.
  • Fellum ei niður þróttinn sterka. Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, leiðsögumaður og fjallamennskukennari, frá Svínafelli.
  • Faðir minn, Sandurinn. Hallgrímur Helgason, rithöfundur.

Fundarstjóri: Borgþór Arngrímsson

Hátíðardagskrá við Skeiðarárbrú

Hátíðardagskrá fer fram við vesturenda Skeiðarárbrúar klukkan 15:30. Líkt og við vígslu brúarinnar árið 1974 verður ýmislegt gert til skemmtunar. Flutt verða stutt ávörp, Öræfingakórinn syngur, lúðrasveit Hornafjarðar spilar og klifurfélag Öræfinga sýnir listir sínar í brúnni. Listakonurnar Eva Bjarnadóttir og Hanna Dís Whitehead skreyta brúna með litríkum veifum í tilefni dagsins. 50 veifur, ein fyrir hvert ár.

Boðið verður upp á léttar veitingar á hátíðinni, en ef illa viðrar verða þær í boði í Skaftafellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli, að lokinni athöfninni.

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974.  Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar.

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974. Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar.

Tjald var reist við brúarendann þar sem haldið var ball um kvöldið.

Tjald var reist við brúarendann þar sem haldið var ball um kvöldið.

Brúarsmíði á Skeiðarársandi. Brúarsmíðin hófst 1972 og brúin vígð 1974.

Brúarsmíði á Skeiðarársandi. Brúarsmíðin hófst 1972 og brúin vígð 1974.

Brúarsmíði á Skeiðarársandi. Brúarsmíðin hófst 1972 og brúin vígð 1974.

Brúarsmíði á Skeiðarársandi. Brúarsmíðin hófst 1972 og brúin vígð 1974.

Skeiðarárbrúin stendur nú á þurru og hefur lokið hlutverki sínu. Mynd: Bjarki Jóhannsson

Skeiðarárbrúin stendur nú á þurru og hefur lokið hlutverki sínu. Mynd: Bjarki Jóhannsson

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974. Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar. Mynd/Ímynd

Hringvegurinn var formlega opnaður 14. júlí 1974. Þúsundir mættu á vígsluna, hvaðanæva að af landinu. Athöfnin fór fram við vestari brúarsporð Skeiðarárbrúar en hátíðin var hluti af 1100 ára afmælishátíð Íslandsbyggðar. Mynd/Ímynd