8. febrúar 2024
Hraun runn­ið yfir Grinda­víkur­veg

Vegagerðin fylgist grannt með stöðu mála á Reykjanesi vegna eldgossins sem hófst snemma í morgun. Hraun hefur þegar runnið yfir kafla á Grindavíkurvegi og yfir veginn að Bláa lóninu. Settur hefur verið enn meiri kraftur í vetrarþjónustu á Nesvegi, Suðurstrandavegi og Krýsuvíkurvegi og einnig er lögð áhersla á að aðstoða viðbragðsaðila eftir þörfum.

Ekki er ljóst hve lengi gosið mun standa yfir. Vegagerðin bíður átekta áður en hægt verður að meta skemmdir á vegum og ráðast í viðgerðir. Viðbrögð við þessum atburðum eru til skoðunar.

Undirbúningur er þegar hafinn vegna vinnu við að styrkja Nesveg. Búiast má við að umferð um veginn muni aukast á næstunni þar sem Grindavíkurvegur er ófær vegna hraunstraums. Fyllsta öryggis er gætt og unnið eftir viðmiðum og reglum Almannavarna.

Frá Grindavíkurvegi í morgun

Frá Grindavíkurvegi í morgun