Hraun rennur nú yfir Grindavíkurveg, norðan varnargarðanna við Svartsengi. Hrauntjörn brast í bítið í morgun og í kjölfarið streymdi hraun hratt í áttina að veginum. Hraunið náði veginum klukkan 10:40. Þegar er búið að loka varnargarði til að verja mikilvæga innviði. Þá er búið að loka Bláa lóninu. Vegagerðin fylgist grannt með stöðu mála.
Þetta er í þriðja skiptið sem hraun rennur yfir Grindavíkurveg á þessum slóðum. Í þetta sinn rennur hraunið aðeins sunnar en áður hefur gerst.