Vatn flæðir yfir brúna yfir ánna Skálm og á Hringveginn á um kílómetra metra kafla austan við brúna. Starfsfólk frá Vegagerðinni og lögreglunni er komið á staðinn og búið er að loka veginum milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Vegurinn er farinn í sundur austan megin við brúna og skemmdir eru á brúarendunum sökum vatnsflaumsins. Vatn hefur einnig flætt yfir veginn niður í Álftaveri.
„Hér er mikill vatnselgur sem flæðir yfir brúna og veginn á margra metra kafla. Það er mikil eðja í vatninu og ég tel miklar líkur á að við missum brúna og veginn hérna. Ef vegurinn fer alveg í sundur gætum við bjargað brúnni,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal.
Hann segir vatnselginn um hnédjúpan og vegrið beggja vegna brúarinar eru horfin ofan í hann. „Vatnið flæðir ekki alveg stöðugt yfir brúna svo mig grunar að það sé að grafa sig í gegnum veginn líka. Það er ekki hægt að hleypa nokkrum manni í gegnum þetta eins og staðan er núna,“ segir Ágúst.
Hönnunardeild Vegagerðarinnar er þegar byrjuð að skoða hvað þarf til ef brúin yfir Skálm fer vegna hlaupsins, og þarf að gera bráðabirgðabrú.
Ekki er hægt að segja til um hversu lengi vegurinn verður lokaður en allar upplýsingar eru birtar jafnóðum á umferdin.is
Fréttin hefur verið uppfærð í takt við nýjar upplýsingar.