Vegna vinnu við ný undirgöng undir Breiðholtsbraut við Suðurfell / Jaðarsel verður umferð bíla færð á hjáleið til hliðar við framkvæmdasvæðið. Umferð gangandi færist á hjáleið um gatnamót Breiðholtsbrautar og Jaðarsels. Tekur þetta gildi frá og með 26. apríl næstkomandi.
Nýju undirgöngin er hluti af verkinu breikkun Breiðholtsbrautar sem unnið er að í tengslum við gerð 3. áfanga Arnarnesvegar. Nýju undirgöngin verða 6,5 metra breið, 3,0 metra há og 26 metra löng með aðskildum göngu- og hjólaleiðum. Þau munu leysa af hólmi eldri undirgöng undir Breiðholtsbraut sem eru á móts við Völvufell. Þau undirgöng voru byggð 1993 og uppfylla ekki þá staðla sem nú er miðað við fyrir samgöngumannvirki þessarar gerðar, auk þess að ná ekki undir fyrirhugaða breikkun vegarins.
Úti og Inni Arkitektar og Verkís verkfræðistofa hönnuðu undirgöngin í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg.
Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkur, Kópavogs, Betri samgangna ohf., Veitna og Mílu. Verktakar eru Loftorka og Suðurverk. Eftirlit er í höndum VSB verkfræðistofu.