Um sjötíu manns frá níu löndum sitja fund í Hofi á Akureyri í dag og ræða um hafnir frá ýmsum sjónarhornum. Fundurinn er á vegum Nord-PIANC en það er norrænn hluti alþjóðlegu hafnasamtakanna PIANC. Norðurlöndin skiptast á að halda fundinn á tveggja ára fresti. Ísland átti að halda fundinn í fyrra en vegna Covid var honum frestað um ár.
Fjallað er um hafnir frá ýmsum hliðum á fundinum. Erindi eru fjölbreytt og fyrirlesarar frá öllum Norðurlöndunum. Í upphafi fundarins fór Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar yfir þróun í höfnum á Íslandi á síðustu árum, en Vegagerðin heldur utan um hafnamál á Íslandi.
Hún greindi meðal annars frá þeirri breytingu sem orðið hefur á viðskiptaumhverfi íslenskra hafna síðastliðinn áratug. Áður byggðu hafnirnar afkomu sýna að miklu leyti á aflaverðmæti, fyrir utan Reykjavík og viðskiptahafnir fyrir álver. Með fjölbreyttari iðnaði og ferðaþjónustu hefur tekjumódel þeirra tekið stakkaskiptum og fleiri hafnir eru fjárhagslega sterkari en sést hefur áður.
Að sama skapi hafa fjárframlög til hafnamála aukist talsvert undanfarin ár, en árin eftir hrunið 2008 einkenndust af niðurskurði í málaflokknum. Þetta er mikilvæg þróun í rétta átt enda er mikil endurbyggingaþörf á stálþilsköntum á Íslandi auk þess sem mikil atvinnuuppbygging er í nokkrum höfnum á landsbyggðinni. Þar má nefna uppbyggingu í Þorlákshöfn, nýja kalkþörungaverksmiðju á Súðavík og hraða þróun í fiskeldi við Bíldudal.
Þörfin á enduruppbyggingu endurspeglast einnig í því að umsóknir um ríkisframlög til hafnarframkvæmda hafa aldrei verið fleiri en nú.
Bergþóra benti einnig á að Vegagerðin leggi í æ meiri mæli áherslu á rannsóknir tengdum höfnum. Fjárveitingar til rannsókna drógust verulega saman eftir sameiningu Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar árið 2013 en frá árinu 2018 hefur verið unnið ötullega að því að auka hlut rannsókna og eru nú mörg rannsóknarverkefni tengd höfnum unnin víðsvegar um landið.
Hópurinn sem er frá níu löndum Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Þýskalandi, Kanada og Belgíu, á skemmtilega daga í vændum. Eftir fræðandi fyrirlestra verður gestunum boðið í Skógarböðin sem nýbúið er að opna og á morgun verður farin ferð um Tröllaskaga og skoðaðar hafnir og hafnsækin starfsemi á Dalvík og á Siglufirði.