Borgarlínan hlaut tvenn gullverðlaun í keppni FÍT, Félags íslenskra teiknara, árið 2022. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn föstudaginn 1. apríl sl.
Vefurinn, www.borgarlinan.is, hlaut gullverðlaun í flokki vefsvæða og myndlýsingar Borgarlínunnar fengu gullverðlaun í flokki myndlýsingaraða.
Kolofon Hönnunarstofa vann þessi verkefni í samstarfi við Verkefnastofu Borgarlínunnar. Undirbúningur og framkvæmdir vegna Borgarlínunnar er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Betri samgangna ohf. og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Hörður Lárusson er hönnuður og einn stofnenda Kolofon. Hann er að vonum ánægður með gullverðlaunin, en í ár voru 88 verk tilnefnd til FÍT verðlaunanna í 21 flokki.
„Verðlaun fela auðvitað alltaf í sér ákveðna viðurkenningu á handverki eða vinnu. FÍT verðlaunin eru fagverðlaun á sviði grafískrar hönnunar sem Félag íslenskra teiknara stendur að. Þarna er hópur okkar bestu einstaklinga í faginu fenginn til að leggja dóm á verk síðustu ára. Þetta eru því ekki markaðs- eða vinsældarverðlaun, heldur höfum við hjá Kolofon alltaf litið á FÍT verðlaunin sem viðurkenningu frá faginu. Og á meðan við leggjum okkur alltaf fram um að skila góðu handverki frá okkur, þá hlýnar okkur auðvitað um hjartað við að fá staðfestingu á því að fleirum en bara okkur fannst við vera að gera eitthvað rétt,“ segir Hörður.
Aðspurður segir Hörður að hönnun á efni sem tengist Borgarlínunni hafi í raun fæðst með vinnu í gegnum nokkur verkefni síðustu fjögur árin, eða allt frá því að sýningarbás Reykjavíkur á Verk og vit 2018 var settur upp.
„Sú hönnun lagði strax skýrar línur um að vera fyrst og fremst skýr í framsetningu á tiltölulega flóknum upplýsingum — en um leið falleg og jákvæð. Með þróun verkefnisins í gegnum árin höfum við ekki bara breikkað framsetninguna, heldur dýpkað hana töluvert líka. Þannig eigum við í dag orðið flotta verkfærakistu af útlitseiningum til að nota. Má þar nefna kort, gröf, tímatöflur, liti, letur, teikningar og svo margt fleira,“ upplýsir Hörður.
Til að skapa heim eins og Borgarlínuna þarf margar hendur, að sögn Harðar. „Það er nokkuð auðvelt að telja til hönnuði, umsjónaraðila og teiknara — en þessir aðilar einir og sér duga ekki til. Svona verkefni getur ekki orðið að raunveruleika nema það sé vel unnið að verkefninu allan hringinn. Aðilar í teymi Borgarlínunnar eiga því alls ekki minna hrós skilið en við hjá Kolofon þegar kemur að svona verðlaunum. Það þarf að vera til staðar traust í báðar áttir, áhugi fyrir vinnu hvers annars og ekki síst neisti fyrir því að vilja gera eitthvað nýtt og hugsa inn í framtíðina,“ segir Hörður.
Verðlaunahafar vegna Borgarlínunnar í keppni FÍT 2022:
Myndlýsingaröð. Borgarlínan, Verkefnastofa Borgarlínunnar – Snorri Eldjárn, Atli Þór Árnason og Hörður Lárusson.
Vefsvæði. Borgarlínan, Verkefnastofa Borgarlínu – Atli Þór Árnason, Hörður Lárusson, Anton Jónas Illugason, Helena Rut Sveinsdóttir og Símon Viðarsson.