Umferðin í febrúar á Hringveginum dróst saman um 16,4 prósent í febrúar og hefur aldrei á þessum árstíma dregist jafn mikið saman. Sama á við um umferðina frá áramótum. Hér munar mestu um samdrátt í umferð um Hellisheiði sem kemur ekki á óvart miðað við veðurfar og þar af leiðandi óvenju tíðar lokanir það sem af er ári.
Milli mánaða 2021 og 2022
Gríðarmikill samdráttur varð í umferð yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í nýliðnum febrúar, borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Samdrátturinn nam um 16,4% í heild.
Umferð dróst saman í öllum landshlutum og mest yfir teljarasnið á Suðurlandi (20%) en minnst um Austurland (4%).
Af einstaka stöðum er það að segja að umferð jókst óvænt yfir teljara á Mýrdalssandi um tæp 160%, en þá skal haft í huga að tvö ár þar á undan hafði umferð dregist talsvert saman á þessum stað. Mælisnið á Hellisheiði á mestan þátt í samdrætti umferðar um Suðurland en þar mældist 35% samdráttur.
Tekið skal fram að mikil ófærð hefur verið um Hringveg á Hellisheiði í febrúar og hafa ekki sést aðrar eins samdráttartölur þar, sem kenna má veðurfari um.
Frá áramótum
Nú hefur umferð dregist saman um rúm 11%, frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári fyrir umrædd mælisnið. Aldrei áður hefur umferð dregist jafn mikið saman og í tveimur fyrstu mánuðum ársins þó Covid og bankahrunið sé tekið með. Þetta er langstærsti samdráttur sem mælst hefur miðað við árstíma, en hann er tæplega tvisvar sinnum meiri en eldra samdráttarmet.
Mestu munar um að teljarasnið á höfuðborgarsvæði og Suðurlandi (aðallega Hellisheiði) dragast gríðarmikið saman, en mælisnið í kringum höfuðborgarsvæðið hafa verið stöðugri en umferðarminni snið út á landi, hingað til.
Frá áramótum hefur umferð aukist um Austurland um tæp 4%, sem er jafnframt eina landsvæðið með aukningu, en mest hefur umferð dregist saman um Vesturland eða um tæplega 13%, sjónarmun meira en fyrir mælisnið i kringum höfuðborgarsvæðið.
Umferð eftir vikudögum
Umferð í öllum vikudögum hefur dregist saman, frá áramótum, en hlutfallslega mest á mánudögum (23%) og minnst á miðvikudögum (3%).
Mest hefur verið ekið á föstudögum og minnst á mánudögum.
Talnaefni