Uppsetning á stálvirki fyrir undirstöður nýrrar göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut stendur yfir. Einnig er unnið að samsetningu á brúnni sjálfri, en hún verður síðan hífð upp og sett í heilu lagi á sinn stað. Áætlað er að brúin verði tilbúin fyrir miðjan maí, þ.e. ef veðuraðstæður leyfa.
Ný göngubrú yfir Sæbraut er í undirbúningi.
Vel gengur að reisa stálvirki fyrir undirstöður nýrrar göngubrúar vestan megin Sæbrautar. Þegar því er lokið hefst vinna við uppsetningu á stálvirkinu austan megin. Brúin verður staðsett um það bil miðja vegu milli gatnamóta Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar.
Samhliða þessu er unnið að því að setja brúna sjálfa saman, en í því felst m.a. að setja veggi og þak á hana. Í apríl er gert ráð fyrir að brúin verði hífð upp í heilu lagi og komið fyrir á sínum stað. Verður það gert að næturlagi til að valda sem minnstum umferðartruflunum á Sæbraut. Jafnframt er vonast til að íbúar í nágrenninu verði fyrir sem minnstu raski meðan þessi vinna fer fram.
Næsta skref verður síðan að setja upp stigahús sitthvoru megin brúarinnar, klæða þau og ganga frá tengingum milli brúar og stigahúsa. Því næst verður sett upp lýsing og myndavélakerfi, gengið frá jarðvegi við stigahúsin og göngu- og hjólastígar malbikaðir. Lyftur verða síðan settar upp við báða brúarenda. Lyfturnar koma tilbúnar og verða hífðar á sinn stað í heilu lagi.
Með tilkomu nýrrar brúar verður til ný göngu- og hjólaleið milli Tranavogs og Snekkjuvogs. Brúnni er ætlað að bæta umferðaröryggi verulega fyrir vegfarendur milli nýrrar Vogabyggðar og Vogahverfis, ekki síst fyrir skólabörn í Vogaskóla. Brúin mun þjóna hlutverki sínu þar til Sæbraut verður sett í stokk.
Framkvæmdin er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og heyrir undir Samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.
Undirbúningsvinna stendur yfir austan megin.
Brúin verður tilbúin í maí, ef veðuraðstæður leyfa.