Alda, brú yfir Fossvog, var til kynningar hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær, 31. janúar. Hjá Verkefnastofu Borgarlínu, sem er undir hatti Vegagerðarinnar, er undirbúningur fyrir útboð langt á veg kominn en tvö útboð eru í undirbúningi, annars vegar fyrir fyllingar og hins vegar fyrir smíði brúarinnar. Alda er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum, ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog.
Áætlað er að fyrsta útboð af tveimur fari fram með vorinu en þá verða fyllingar boðnar út. Fyllingar í Skerjafirði verða hluti af því útboði. Útboð á smíði brúarinnar og landmótun er síðan fyrirhugað um mitt sumar. Í síðari útboðinu er meðal annars gert ráð fyrir 900 tonnum af stáli í yfirbyggingu brúarinnar, sem verður í fimm höfum með steyptu brúargólfi. Gert er ráð fyrir að stórar forsmíðaðar einingar verði notaðar í stöpla og yfirbyggingu. Brúin verður 270 m að lengd.
Taka þarf sérstakt tillit til starfsemi Reykjavíkurflugvallar í báðum útboðum og þau áhrif sem flugumferð hefur á framkvæmdir við fyllingar og byggingu brúarinnar.
Áætlað er að vinna við landfyllingar hefjist í sumar og að byrjað verði á Kársnesi. Í byrjun næsta árs er svo áætlað að hefja vinnu við brúargerð og landfyllingar Reykjavíkurmegin. Fyrirhugað er að hefja vinnu við landfyllingar í Skerjafirði árið 2026 og samhliða verður unnið við brúargerð. Verklok eru áætluð á árinu 2027.
Auk þess að vera mikilvæg samgöngutenging breytir brúin útivistarmöguleikum á svæðinu því göngustígurinn austan á brúnni bindur saman fimm kílómetra göngu- og hlaupaleið um Fossvoginn. Þaðan er fallegt útsýni yfir fjölbreytt útivistarsvæði og strandlengju Fossvogs. Af áningarstöðum við göngustíginn á brúnni er einnig ágætt útsýni til vesturs út Skerjafjörð.
Hönnun Öldu hefur verið frá árinu 2022 unnin af verkfræðistofunni EFLU fyrir Borgarlínuna í samstarfi við Verkefnastofu Borgarlínunnar, Vegagerðina, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ. Fossvogsbrú er hluti af verkefnum sem heyra undir Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem gerður var milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu árið 2019.
Áætlaður kostnaður við brúna eru 6,7 milljarðar króna. Áætlaður kostnaður við landmótun og yfirborðsfrágang er 2,1 milljarðar króna. Í þeim kostnaði eru 500 milljónir vegna landfyllinga í Skerjafirði en sú framkvæmd og kostnaður heyrir undir Reykjavíkjurborg.
Með Borgarlínunni verður til nýtt almenningssamgöngukerfi sem tengir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu betur saman, með betri lífsgæðum og einfaldara lífi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Með henni eru innviðir styrktir og tekin nauðsynleg skref í loftslagsmálum og í átt að betri lýðheilsu.