Allri sölu farmiða fyrir landsbyggðarstrætó í gegnum gamla Strætó-appið verður hætt 1. júlí nk. en þá verður Strætó-appinu lokað. Áfram verður hægt að borga með reiðufé og fá til baka eða greiða með greiðslukorti um borð í vögnunum. Þá gilda tímabils- og nemakort áfram.
Hingað til hafa langflestir farmiðar með landsbyggðarstrætó verið keyptir með reiðufé eða greiðslukorti. Sala miða í appinu var að meðaltali aðeins 3% allra seldra fargjalda á landsbyggðinni. Vegagerðin vinnur að því að bæta við fleiri greiðslumöguleikum fyrir farþega á landsbyggðinni. Á meðan geta farþegar séð öll verð fyrir landsbyggðarstrætó, skipulagt ferðir sínar og skoðað ferðir vagna í rauntíma í Klappinu.
Öll virkni sem viðkemur leiðarkerfi eða miðum fyrir höfuðborgarsvæðið er komin alfarið í Klappið. Þeir sem eiga enn miða fyrir leiðarkerfi höfuðborgarsvæðisins í gamla Strætó-appinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Strætó með því að senda tölvupóst á endurgreidslur@straeto.is með upplýsingum um símanúmer og eins ef um er að ræða miða á landsbyggðinni og í hvaða landshluta miðinn gildir.
Vegagerðin hefur ákveðið að fargjöld stakra farmiða muni hækka 1. júlí úr 490 kr. í 570 kr. Er það gert í samræmi við hækkun gjaldskrár Strætó bs. en verð stakra fargjalda með vögnum á höfuðborgarsvæðinu hækkar úr 550 kr. í 570 kr. Þess ber að geta að Vegagerðin tók ákvörðun á sínum tíma að hækka ekki miðverð í landsbyggðarvögnum þegar Strætó bs. hækkaði almennt fargjald úr 490 kr í 550 kr. Tímabilskort og nemakort hækka ekki að sinni.