Göngubrýrnar við Eskifell og Kollumúla yfir Jökulsá í Lóni skemmdust talsvert í óveðri sem gekk yfir Austurland í lok september. Starfsfólk Vegagerðarinnar lagaði brýrnar fyrir veturinn en frekari viðgerðir bíða sumarsins.
Göngubrýrnar við Eskifell og Kollumúla yfir Jökulsá í Lóni skemmdust talsvert í óveðri sem gekk yfir Austurland í lok september. Starfsfólk Vegagerðarinnar lagaði brýrnar fyrir veturinn en frekari viðgerðir bíða sumarsins.
Brýrnar tvær eru hluti af gönguleiðinni Austurstræti sem er 50 kílómetra leið sem liggur frá Stafafelli, um Eskifell, Kollumúla og Víðidal.
Göngubrúin yfir Jökulsá í Lóni við Eskifell er ein sú lengsta á landinu, 95 m löng. Hún var byggð af starfsmönnum Vegagerðarinnar árið 2004. Brúin skemmdist töluvert í óveðrinu sem gekk yfir Austurland sunnudaginn 25. september og aðfaranótt mánudagsins. „Þetta voru talsverðar skemmdir, það slitnaði hliðarstag og fjögur upphengistög. Svo bognuðu fjögur upphengistög sem halda uppi brúargólfinu. Þá var skemmd í stálbitum og vindgrind í gólfinu auk þess sem festingar á gólfinu við stöplana urðu fyrir tjóni,“ segir Sveinn Þórðarson verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar. Hann skoðaði aðstæður strax á miðvikudegi eftir óveðrið og á fimmtudeginum fór hann með starfsmönnum Vegagerðarinnar á Höfn til að laga upphengjurnar. „Notuð var beltagrafa til að lyfta undir þverbitana á meðan nýtt upphengistag var sett upp því brúin hallaðist svo mikið að erfitt var að athafna sig á henni.“
Í byrjun nóvember fór síðan hópur upp eftir á ný til að laga vindgrind og skipta um hliðarstög. Ekki náðist að tryggja brúna alveg og því verður farið aftur um leið og fært verður yfir Skyndidalsá og verkið klárað.
Nauðsynlegt er að fara í meiri framkvæmdir og viðgerðir. „Það þarf að yfirfara hönnun og verður það gert í vetur svo hægt verði að ráðast í viðgerðir í vor,“ upplýsir Sveinn.
Brúin yfir Jökulsá í Lóni við Kollumúla var endurreist af brúarvinnuflokki Vegagerðarinnar árið 2019 eftir að hafa hrunið í óveðri á gamlársdag 2018. Í fyrstu virtist brúin hafa sloppið nokkuð vel í óveðrinu í september síðastliðnum. „En þegar betur var að gáð voru skemmdirnar töluverðar. Mest allt gólfið fauk af brúnni, gólfbitar í endana losnuðu og svo skekktist undirstaða turnsins en bergboltar virðast hafa losnað,“ lýsir Sveinn.
Sveinn fór á staðinn í lok október með starfsmönnum úr vitaflokki Vegagerðarinnar og smiðum frá Höfn. „Við festum niður gólfið, löguðum hliðarstag og reyndum að tryggja að stöpullinn myndi ekki hreyfast meira í vetur. Þá festum við handriðsvíra sem höfðu víða losnað.“ Líkt og í Eskifelli þarf að gera betur við brúna í Kollumúla og verður það skoðað í vor.
En af hverju skemmast brýrnar svona illa? „Það verður algert veðravíti á þessum stað. Ég sá myndir frá smölum sem voru fyrstir á staðinn og ég hef aldrei séð annað eins, mosinn var fokinn af á stórum köflum,“ segir Sveinn.
Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 7. tbl. 2022 nr. 722. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.