10. september 2024
Garðskaga­viti yngri fagnar 80 ára afmæli

Garðskagaviti yngri fagnar 80 ára afmæli í ár. Af því tilefni stendur Byggðasafnið á Garðskaga fyrir afmælishátíð í dag, 10. september 2024. Hér fyrir neðan er litið yfir tæknisögu þessarar táknrænu byggingar, sem er og verið hefur ómetanleg fyrir sjófarendur.

Garðskagaviti var byggður á rétt um þremur mánuðum árið 1944.

Garðskagaviti var byggður á rétt um þremur mánuðum árið 1944.

Garðskagavitinn eldri var byggður árið 1897.

Garðskagavitinn eldri var byggður árið 1897.

Upphaf byggingar

Bygging vitans hófst þann 11. júní 1944 á Garðstaðarflös um 215 metrum suðaustur af gamla vitanum (1897) yst á Garðskaga. Hann var reistur á tæplega þremur mánuðum. Nýi vitinn var hafður lengra frá sjónum en sá eldri til að forðast landbrot og særok sem gekk jafnan yfir gamla vitann og dró þannig úr sýnileika hans þegar mest þurfti á að halda í lélegu skyggni.

Lok verka og vígsla vitans

Slökkt var á eldri vitanum frá 28. ágúst til 7. september 1944  og ljósakrónan og ljósgjafinn flutt yfir í nýja vitann. Gamli vitinn var aldrei lagður af heldur endurbyggður og hætt að nota gömlu vitabygginguna og ljóshúsið. Nýja vitabyggingin (1944) var formlega vígð þann 10. september 1944 með útiguðsþjónustu séra Eiríks Brynjólfssonar og hún formlega tekin í notkun.

Garðskagavitinn gamli er vinsæll áfangastaður ferðamanna í dag.

Garðskagavitinn gamli er vinsæll áfangastaður ferðamanna í dag.

Hönnun og tæknileg byggingaratriði

Axel Sveinsson verkfræðingur var hönnuður hins nýja vita. Tók hann við sem vitamálastjóri 25. október þetta sama ár af Emil Jónssyni, sem sagði af sér sem vitamálastjóri og gerðist ráðherra. Nýi vitinn á Garðskaga er sívalur turn úr járnbentri steypu með 20 cm þykkum veggjum, 23,1 metri á hæð frá palli að ljósi, með 7,5 metra þvermál neðst og 5 metra þvermál efst. Vitinn stendur á 1,5 metra háum palli, og þar ofan á er 4 metra hátt enskt  ljóshús. Garðskagaviti er því með hæstu vitabyggingum landsins, eða 28,6 metrar. Ljóshæð vitans yfir meðalflóðhæð á svæðinu er 31 metri. Upphaflega var vitinn húðaður að utan með hvítu sementi og kvarsi ásamt kalksteinssalla og silfurbergsögnum til þess að losna við málningu og minnka viðhaldsþörf. Árið 1986 var hann kústaður með hvítu viðgerða- og þéttiefni sem hefur haldist þannig síðan.

Tæknibylting í vitamálum – rafmagns- og varabúnaður

Garðskagavitinn nýi var fyrsti stóri vitinn hér á landi sem var rafvæddur og útbúinn fjölmörgum tækninýjungum. Rafmagnspera var notuð sem ljósgjafi fyrir vitalinsuna og til vara olíukveiklampi úr gamla vitanum (1897), en hann var með tveimur kveikum sem brenndi steinolíu. Rafmagnið var fengið frá vindrafstöð sem var sérstaklega sett upp fyrir vitann og knúði það rafmagn einnig snúningsbúnað linsunnar. Henni var áður snúið með klukku og trekkjanlegu sigurverki með lóðum en það var nú til vara. Ekki þurfti að draga lóðin upp nema einu sinni á sólarhring, vegna þess hve nýi vitinn var miklu hærri. Því var hægt að nota lengri reipi í reipdrifið en trekkja þurfti upp sigurverkið í gamla vitanum á 4 klst. fresti á auglýstu ljósatímabili hans. Ef þráður rafmagnsperunnar gaf sig eða vindrafstöðin gaf ekki nægt rafmagn, þá var skipt út fyrir steinolíulampann. Líklegast hefur lampinn verið festur á stöng þannig að auðvelt væri að fjarlægja hann og setja olíukveiklampann í staðinn. Önnur nýjung sem sett var í vitann á þessu fyrsta ári hans var aukaviti fyrir rautt varúðarljós yfir Bæjarskerseyri [Býjaskerseyri] og það staðsett fyrir neðan aðalljósið á neðri hæð vitans. Gluggar á vitabyggingum eru því ekki aðeins hugsaðir til að hleypa birtu inn heldur líka til að geta verið með aukavita ef með þarf á neðri hæðum. Aukavitinn var einnig útbúinn rafmagnsperu.

Nýjungar og breytingar

Árið 1946, tveimur árum eftir að nýi vitinn var tekinn í notkun, var vindrafstöðin lögð af þegar rafmagn frá veitu var lagt í Garðinn. Ný vitalinsa og nýr ljósbúnaður með sjálfvirkum peruskipti sem  skipti yfir á varaljós var settur upp árið 1960, og steinolíulampinn, ásamt snúnings- og sigurverkinu tekinn úr notkun sem varabúnaður. Klukkan og sigurverkið sem sneru vitalinsunni með lóðum eru varðveitt á byggðasafninu í Garði og rafmagnspera eins og notuð var í Garðskagavita 1944 er til sýnis í vitasafni Hollvinasamtaka Reykjanesvita sem staðsett er í vélarhúsi Reykjanesvita. Gamla ljósakrónan frá 1897 er til sýnis í anddyri höfuðstöðva Vegagerðarinnar í Suðurhrauni og lítur hún út eins og ný enn þann dag í dag, en linsan var notuð í Galtarvita frá 1960 – 1994.

Auglýsing úr Suðri, Reykjavík 23. september 1884.  Fyrsti vörðuvitinn á Garðskaga og annar ljósviti Íslands.

Auglýsing úr Suðri, Reykjavík 23. september 1884. Fyrsti vörðuvitinn á Garðskaga og annar ljósviti Íslands.

Reykjavíkurpósturinn. 1. tölublað, 1847.  Með póstskipi kom hingað smíðuð járnvarða, sem setja á suðurá Garðskaga til leiðarvísis hafskipum er sigla inn og út faxaflóa.  Á varða þessi með grjótstöpli sem hlaðinn verður undir hana , að vera 15 álnir frá jörðu.

Reykjavíkurpósturinn. 1. tölublað, 1847. Með póstskipi kom hingað smíðuð járnvarða, sem setja á suðurá Garðskaga til leiðarvísis hafskipum er sigla inn og út faxaflóa. Á varða þessi með grjótstöpli sem hlaðinn verður undir hana , að vera 15 álnir frá jörðu.

Saga Garðskagavitanna á Skagatá og Garðstaðarflös

Fyrsta þekkta leiðarmerkið (1848) á Garðskaga var ljóslaust siglingarmerki á Skagatá sem gert var úr járnstöng sem sett var á grjótstöpul. Síðar var bætt við frumstæðri handolíulugt í ljóskeri á merkið (1884) og gerður þannig vörðuviti sem lýsti um nætur með auglýstu ljóstímabili. Þetta var annar ljósviti Íslands á eftir Reykjanesvitanum 1878. Árið 1897 var síðan byggður steinsteyptur viti með fullkominni vitalinsu og steinolíulampa, og árið 1915 var sett í vitann rauður ljósgeiri yfir Bæjarskerseyri. Garðskagavitinn á Skagatá var upphaflega kallaður Skagatáarviti þar sem hann var yst á Skagatá. Vitinn (1884-2024) hefur því staðið sem tákn um öryggi og traust í 140 ár.

 

  • (1848) Garðskagi:  Siglingamerki.  Hlaðinn grjótstöpull og járnvarða efst.  Ljóslaust. 15 álnir að hæð.
  • (1884) Fyrsta leiðarlósið. Skagatáarviti: Varða frá 1848. Hvítt, fast skriðljós frá frumstæðri olíulugt (skriðbytta, ljósker sem hægt var að halda á og bera með sér) sett í járnvörðuna. Kveikt. 1. október.  34 fet á hæð.
  • (1897) Skagatáarviti: Gamli vitinn.  Steinolíulampi í vitalinsu og olíutankur. Hvítur blossaviti.
  • (1915)  Garðskagarviti: Rauð rúða teiknuð í vitann sem lýsir rauðum geisla  yfir Bæjarskerseyri.
  • (1941) Garðskagarviti: Radarendurkast sett á vitann að ósk breska hernámsliðsins.
  • (1944) Garðskagarviti. Nýi vitinn, rafmagnspera knúin af vindrafstöð. Steinolíulampi hafður til vara.  Settur upp aukaviti fyrir rauðan ljósgeisla yfir Býjarskerseyri.
  • (1946) Garðskagarviti. Vitinn rafvæddur frá veitu og vindrafstöð lögð af.
  • (1952) Miðunarstöð á Vitastöðinni Garðskaga.
  • (1960) Garðskagarviti. Ný ljóstæki og linsa sett í vitann með peruskipti. Steinolíulampi og klukkuverk lagt af.