Valgeir Ingólfsson hefur staðið vaktina hjá Vegagerðinni í Borgarnesi í næstum hálfa öld. Í gegnum tíðina hefur hann sinnt fjölbreyttum verkefnum, unnið á vélum á borð við veghefla, skiltabíla og málningarbíla, verið verkstjóri og nú síðast yfirverkstjóri á þjónustudeild Vestursvæðis. Þegar hann lítur yfir farinn veg segir Valgeir að honum hafi aldrei þótt ástæða til að skipta um vinnu.
Valgeir tekur á móti blaðamanni í húsakynnum Vegagerðarinnar í Borgarnesi en hann lauk síðustu vaktinni þar í lok maí eftir farsælan feril. „Ég man upp á dag hvenær ég byrjaði að vinna hjá Vegagerðinni. Það var þann 6. júní 1974. Ég var ráðinn til starfa hjá Vegagerðinni á Snæfellsnesi, í áhaldahúsinu hjá Vegamótum og fyrsta verkefnið var að mála vinnuskúr. Síðan kom til mín vélamaður og hefilstjóri af Snæfellsnesinu, Ríkharður Hjörleifsson, og sagði mér að það vantaði vélamenn í Borgarnesi í afleysingar, vitandi að sveitakrakkar eins og ég værum nokkuð góðir á vélar. Ég renndi í Borgarnes á föstudegi, sótti um og var byrjaður að leysa af á vélum á mánudegi. Þarna var ég tuttugu og eins árs,“ segir Valgeir um tilurð þess að hann réði sig til starfa á sínum tíma.
Fyrstu verkefnin hjá Vegagerðinni eru honum enn í fersku minni. „Ég fór strax að læra á hjólaskóflu og sinnti ámokstri á bíla, auk þess að leysa af á veghefli. Í þessum verkum var ég allt árið um kring og fór um allar sveitir. Þetta var mjög gaman og átti vel við mig. Ég var fljótur að læra til verka og líkaði vel að vinna á vélum. Þótt ég væri oft einn að vinna, stundum langtímum og jafnvel dögum saman, truflaði það mig ekki neitt. Á þessum árum var Vegagerðin með þrjá til fjóra vinnuflokka úti á mörkinni, sem sinntu þjónustu varðandi vegina. Þegar ég var á hjólaskóflunni var ég í vinnuflokki úti í sveitum og það var ekki alltaf gist heima heldur í vegavinnuskúrum og það var ráðskona sem eldaði ofan í okkur. Það var misjafnt eftir stærð verkefna í mölburði hversu margir voru að vinna. Þetta var allt frá þremur og upp í tíu vörubíla að keyra út og allur mannskapurinn í kringum það. Vegakerfið samanstóð af malarvegum og það var mikið að gera í viðhaldi þeirra,“ rifjar Valgeir upp og bætir við að vegakerfið hafi tekið stakkaskiptum frá þessum tíma.
„Á þessum árum var nánast enginn spotti á landinu með bundnu slitlagi. Það var til dæmis ekki fyrr en um og eftir 1980 að farið var að leggja bundið slitlag hér í kringum um Borgarnesið og það liðu mörg ár þar til að búið var að malbika leiðina frá Borgarnesi til Reykjavíkur,“ segir Valgeir og minnist á að fólk sé oft fljótt að gleyma hversu miklu hafi verið áorkað varðandi vegagerð síðustu áratugina.
Ein stærsta framkvæmd sem hann tók þátt í var undirbúningur og aðkoma að byggingu Borgarfjarðarbrúar. „Ég vann á vörubíl við að keyra grjót í varnargarðana, en ég leysti mikið af á bílunum líka. Miklar vinnubúðir voru á Seleyrinni, sunnan við fjörðinn. Grjótnáman þaðan sem grjótið í varnargarðana var tekið er innanbæjar í Borgarnesi í dag og búið að byggja á því svæði. Það gekk á ýmsu þegar við vorum að keyra grjót í varnargarðana og fyllinguna. Það varð að fylgja flóði og fjöru við smíði brúarinnar og fyrstu vikurnar þegar unnið var við fyllinguna flæddi yfir hana þegar það var stórstreymt. Það var verkfræðilegt þrekvirki að koma þessari brú upp,“ segir Valgeir.
-En eru einhver önnur verkefni eða framkvæmdir sem standa upp úr í minningunni?
„Ég veit ekki hvað skal segja en mér fannst alltaf rosalega gaman að moka snjó. Það var líka skemmtilegur tími árið 1992 en þá vann ég á svokölluðum skiltabíl, þ.e. vörubíl með krana sem var í viðhaldi á umferðarmerkjum og uppsetningu nýrra umferðarmerkja um allt land. Mikið var að gera við að setja upp ný umferðarmerki því það var verið að skipta út leiðarmerkjum á vegamótum. Eins var verið að gera stofnbrautir að aðalbrautum og setja upp biðskyldumerki á hliðarvegi. Það sumar var rosalega mikið að gera hjá mér. Ég fór um allt land, líka Vestfirðina. Um haustið vorum við í að setja upp vegrið, mig minnir að það hafi verið í Bakkaselsbrekkunni. Sem dæmi um hvað maður var mikið í burtu frá heimilinu þá voru gistinætur vegna vinnu það árið 104 talsins,“ segir Valgeir.
Árið eftir, 1993, lá leiðin síðan yfir í málningarbílinn. „Þá um vorið var ég spurður hvort ég væri til í að taka við málningarbílnum og ég lét slag standa. Ég tók við sem verkstjóri og var í yfirborðsmerkingum á vegum í tíu ár. Þá tók við nýr kafli þegar ég varð aðalverkstjóri og svokallaður rekstrarstjóri var minn næsti yfirmaður. Síðustu tíu árin var ég yfirverkstjóri hér á þjónustustöðinni og var með góða verkstjóra með mér. Það starf snýst að mestu um að halda utan um peningamálin, áætlanagerð og skipulag. Þar undir heyrir viðhald malarvega, rykbinding og fleira. Síðan koma alltaf upp verkefni sem eru ekki á áætlun, það bila ræsi eða það gerir stórrigningu og vegir fara í sundur, svo dæmi séu tekin,“ segir Valgeir, sem vann með sex vegamálastjórum á sínum ferli.
Hann starfaði svo gott sem óslitið hjá Vegagerðinni í öll þessi ár, utan þrjú sumur þar sem hann vann sem bílstjóri og ferðaðist um landið með erlenda ferðamenn og eitt sumar þegar hann keyrði olíubíl.
Einn snjóþungur vetur er Valgeiri sérlega minnisstæður. „Við vorum að sinna snjómokstri á Holtavörðuheiðinni. Þetta var á skírdag, það var suðvestan éljagangur og allt á kafi í snjó. Við vorum með blásara, veghefil og jarðýtu til að ryðja heiðina. Einn starfsmaður átti að stoppa alla umferð niðri við heiðarsporð sunnan megin þangað til við værum komnir í gegn en verkið gekk seint og illa og tafðist. Við týndum veginum á einum stað og fórum út fyrir hann þannig að þetta tafðist enn meira. Fyrir misskilning taldi sá sem var á vaktinni suðurfrá að við værum alveg að komast í gegn og fór af stað með bílalestina, sem síðan náði okkur áður við gátum opnað fyrir umferð. Við töldum 45 bíla komast í gegn en margir bílar sátu fastir í snjógöngum svo það endaði með því að við vorum að aðstoða fólk við að komast í skjól í Staðarskála til klukkan hálffjögur um nóttina. Fólk var flutt á milli bíla eins og hægt var og að lokum þurfti að selflytja fólk úr nokkrum bílum með jarðýtunni. Margir bílar voru skildir eftir á heiðinni. Daginn eftir var bandvitlaust veður og ekki hægt að opna fyrr en á laugardeginum fyrir páska,“ rifjar Valgeir upp.
En hvað finnst honum hafa breyst mest á þessari tæpu hálfu öld? „Vegakerfið og vinnutíminn. Þetta voru mest koppagötur og malarvegir, holóttir. Um leið og það gerði rigningu þá var allt í holum. Það var alltaf stefnt að því búið væri að hefla og rykbinda vegina fyrir verslunarmannahelgina. Eitt árið var allt búið á tilsettum tíma en þá gerði ofsarigningu. Þá fórum við út aftur með níu veghefla og það var unnið dag sem nótt til að koma vegunum í stand aftur. Algengt var að vegir væru ófærir vegna aurbleytu á vorin, líka stofnvegir. Nú til dags eru flestallir vegir færir allt árið um kring,“ segir Valgeir.
Hvað varðar vinnutímann segir hann að á veturna hafi oft verið byrjað að vinna klukkan sex á morgnana og unnið fram yfir miðnætti. „Núna er bara unnið fram að seinna kaffi,“ segir hann.
„Það er líka munur á vetrarþjónustunni. Kröfurnar eru orðnar miklu meiri og vegirnir þurfa að vera hreinir og hálkulausir allan sólarhringinn. Það er líka meira álag á vegakerfið með auknum fjölda ferðamanna og þungaflutningum,“ bætir Valgeir við.
Haustið eftir að Valgeir byrjaði að vinna hjá Vegagerðinni flutti hann í Borgarnes og hefur búið þar allar götur síðan. Hann er fæddur í Reykhólasveitinni og uppalinn á Straumfjarðartungu á Snæfellsnesi. „Foreldrar mínir voru bændur og voru með kindur og kýr. Ég ólst upp við hefðbundin sveitastörf en fékk fyrstu launuðu vinnuna um sjö ára aldurinn. Þá var ég lánaður á næsta bæ til að halda eldri manni selskap á meðan sonur hans vann í sláturhúsinu. Það haustið fékk ég að launum gráa gimbur. Ég hafði alltaf áhuga á vélum og var ekki spenntur fyrir því að verða bóndi,“ segir Valgeir. Straumfjarðartunga er enn í eigu fjölskyldunnar þótt ekki sé lengur búið á jörðinni.
Valgeir er giftur Jóhönnu Þorbjörgu Björnsdóttur og þau hjón hafa búið sér fallegt heimili í Borgarnesi. „Við eigum tvo syni, þá Björn Sólmar og Ingólf Hólmar og fyrir átti ég dóttur, Kristínu Amelíu og samtals eru barnabörnin orðin ellefu. Þau systkinin eru búsett hér í Borgarnesi og hafa öll valið sér að vinna í kringum börn. Björn Sólmar er fótboltaþjálfari yngri flokka ÍA og vann á leikskóla. Ingólfur Hólmar vann í matvælaiðnaðinum, fór síðan að vinna á leikskóla og er núna að læra til leikskólaliða, vel á fertugsaldri. Kristín Amelía er skólaliði í Grunnskólanum í Borgarnesi,“ segir Valgeir og stoltið leynir sér ekki.
Þau hjónin hafa ánægju af því að ferðast um landið. „Ég segi stundum í gamni að Reykhólasveitin sé fallegasti staðurinn á landinu. Áhugamálin eru margvísleg en ætli fótboltinn sé þar ekki í fyrsta sæti. Við erum mikil fótboltafjölskylda. Strákarnir okkar byrjuðu í kringum fimm ára aldurinn að æfa fótbolta og fóru báðir upp í meistaraflokk. Við Jóhanna vorum viðloðandi fótboltann í tuttugu ár, vorum t.d. bæði um tíma formenn knattspyrnudeildar Skallagríms. Annars fylgist ég vel með enska boltanum og þar er Liverpool í uppáhaldi,“ segir Valgeir.
Hann skellir upp úr þegar talið berst að því hvort honum eigi ekki eftir að leiðast nú þegar hann er sestur í hinn svokallaða helgan stein. „Nei, það verður ekkert vandamál að finna eitthvað til að hafa fyrir stafni. Ég dunda mér heima, er með hús og lóð, bíl og hjólhýsi og bílskúr. Ég er þegar byrjaður að koma mér í betra form og geng 2-6 km nokkrum sinnum í viku. Úthaldið er strax orðið betra frá því í vor.“
Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hvort hann hafi átt von á því að verja starfsævinni hjá Vegagerðinni. „Ég pældi ekkert í því á sínum tíma. Manni fannst engin ástæða til að skipta um vinnu. Þegar ég lít til baka yfir farinn veg er ég ánægður. Vegagerðin hefur verið góður vinnustaður og gott fólk sem þar starfar.“