Herjólfur ohf. hóf að sigla sjö ferðir á dag í Landeyjahöfn laugardaginn 2. apríl. Fjarlægja þurfti 15 þúsund rúmmetra af sandi til að opna höfnina, en fyrir þann tíma höfðu siglingarnar verið háðar sjávarföllum og farnar fjórar ferðir á dag. Dýpkunarskipið Dísa verður að störfum út apríl. Dýpkun í höfninni frá september og fram í maí verður boðin út í vor.
Nýting Landeyjahafnar hefur verið með minna móti þennan vetur vegna veðurs. Herjólfur fór aðeins 34 ferðir til Landeyjahafnar í janúar, 92 ferðir til Þorlákshafnar og tvo daga var ekkert siglt. Til samanburðar voru farnar 286 ferðir til Landeyjahafnar og 20 til Þorlákshafnar í janúar 2021.
Dýpi við höfnina hefur verið takmarkað í vetur enda geta dýpkunarskip ekki athafnað sig í mynni Landeyjahafnar þegar ölduhæð er yfir 1,5 m. Veður voru mjög óhagstæð fyrstu mánuði ársins og ölduhæð almennt yfir mörkum. Aðeins tvisvar gafst veður til dýpkunar í einn dag í senn.
Dýpkunarskipið Dísa frá fyrirtækinu Björgun ehf. hóf dýpkun í Landeyjahöfn 24. mars síðastliðinn. Eftir tvo daga þurfti það frá að hverfa á ný vegna veðurs. Það hóf aftur dýpkun 30. mars þegar aldan datt niður og hefur náð að vinna óslitið síðan.
Fjarlægja þurfti 15. þúsund rúmmetra til að opna höfnina og tókst það laugardaginn 2. apríl. Þann dag hóf Herjólfur ohf. að sigla sjö ferðir á dag en fyrir þann tíma höfðu siglingar verið háðar sjávarföllum og farnar fjórar ferðir daglega.
Haldið verður áfram við dýpkun í höfninni næstu vikur en mánudaginn 4. apríl var búið að fjarlægja 22.300 rúmmetra. Fyrst um sinn verður lögð áhersla á dýpka hafnarmynnið í 8 metra. Næst verður innri höfnin hreinsuð þannig að hún verði 5,5 metra djúp við lægstu sjávarstöðu. Fyrir framan garðana verður dýptin 7 metrar. Stefnt er á að ljúka við dýpkun í lok apríl eða byrjun maí.
Gert er ráð fyrir að þessi dýpkun muni duga fram í september en Vegagerðin fylgist þó áfram vel með dýpi í og við höfnina í sumar.
Dýpkun hafnarinnar verður boðin út að nýju í vor. Í útboðinu verður gerð krafa um að lágmarks afkastageta skipsins sem sinnir dýpkuninni verði 10 þúsund rúmmetrar á sólarhring í hafnarmynninu. Sú breyting verður nú gerð að boðin verður út dýpkun fyrir tímabilið september og fram í maí. Áður voru boðnar út dýpkanir frá september fram í nóvember, og síðan frá mars fram í maí enda gat Herjólfur III ekki nýtt höfnina að vetri til þar sem hann risti mun dýpra en núverandi skip.