Framkvæmdum við annan áfanga Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði lauk í byrjun september. Vel hefur tekist að laga veginn að landslaginu á heiðinni.
„Verkinu er lokið og verktakinn búinn að flytja flest tæki í burtu,“ segir Jóhann Birkir Helgason, frá verkfræðistofunni Verkís, sem hefur haft eftirlit með verkinu fyrir hönd Vegagerðarinnar. Verkinu átti upphaflega að ljúka í júlí á þessu ári en tekin var ákvörðun í sumar um að lengja nýja veginn um 850 metra. „Ástæðan var sú að nýi vegurinn endaði fyrir utan veglínu gamla vegarins og því hefði hvort eð er þurft að gera bráðabirgðatengingu á milli. Þá voru þrír þekktir snjóastaðir á þessari leið sem var gott að losna við fyrir veturinn,“ segir Jóhann og því hafa síðustu tveir mánuðir farið í það að vinna þennan nýja kafla.
Verkið Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði, 2. áfangi, snerist um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 13 km kafla. Framkvæmdin náði frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og lá um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn var að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í eldra vegstæði. Inn í verkinu var einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð tveggja áningarstaða. Verktaki var Suðurverk.
Framkvæmdir við annan áfanga hófust í október 2022. Þar sem framkvæmdakaflinn var langur var verkinu skipt upp. „Fyrsta árið var unnið í þriggja kílómetra kafla sem var opnaður fyrir umferð 2023. Annar fjögurra km kafli var unninn frá 2023 til byrjun árs 2024. Um veturinn var ekið á nýja kaflanum en vegurinn svo klæddur um vorið 2024. Síðasti kaflinn var um 6 kílómetrar og vinna við hann kláraðist núna í lok sumars,“ segir Jóhann og telur verkið í heildina hafa gengið afar vel. „Sérstaklega voru öll samskipti mjög góð, bæði við starfsfólk Vegagerðarinnar, verktakann og Umhverfisstofnun sem Vegagerðin fékk til samstarfs til að ráðleggja um hvernig best væri að ganga frá umhverfi vegarins svo hann félli sem best inn í landslagið.“
En voru einhverjar áskoranir? „Já. Til dæmis var nokkur áskorun árið 2023 þegar stór hluti af nýja veginum var í gömlu veglínunni og verktakinn þurfti að vinna með umferðina alveg upp við framkvæmdasvæðið,“ svarar Jóhann. Hann nefnir einnig að á vissum tíma hafi þurft að fara í gríðarlegar sprengingar undir háspennulínu og möstrum. „Það þurfti að leggja mottur fyrir hverja sprengingu og gæta vel að öryggi starfsfólks, en til allrar hamingju urðu engin óhöpp,“ segir Jóhann og bætir við að verktakinn hafi einnig unnið alla veturna þó óveður hafi stundum sett strik í reikninginn.
„Þá var talsverð áskorun að ganga þannig frá svæðinu að vegurinn félli sem best að landslaginu,“ segir Jóhann en telur að mjög vel hafi tekist til. „Til dæmis var ákveðið að taka gamla veginn burtu og í dag er oft erfitt að sjá hvar hann lá.“
Jóhann segir umferðina hafa gengið áætlega meðan á verkinu stóð. „Þó bar aðeins á því, eftir því sem slitlagið náði lengra, að erfiðara varð að halda hraðanum niðri í kringum framkvæmdasvæðin.“
Jóhann segir íbúa Vestfjarða ánægða með framkvæmdina. „Núna bíða bara allir eftir því að þriðji áfangi verði boðinn út og þá verður komið slitlag milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða.“
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2024 nr. 732. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is