Rúmt ár er síðan framkvæmdir við Arnarnesveg hófust, eða í byrjun september 2023. Auk 3. áfanga Arnarnesvegar er einnig innifalið í verkinu breikkun Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Elliðaám, lagning stofnlagnar hitaveitu Suðuræðar II meðfram Breiðholtsbraut frá Völvufelli að Elliðaám, gerð göngu- og hjólastíga og bygging nýrrar göngu- og hjólabrúar yfir Elliðaár við Dimmu.
Framkvæmdir í sumar hafa gengið ágætlega. Búið er að vinna grunnvinnuna við nýja akbraut Breiðholtsbrautar og setja niður ný undirgöng austan Jafnasels. Unnið hefur verið við fyllingar undir Arnarnesveg í Elliðaárdal, klapparskeringar í vegstæði Arnarnesvegar sunnan Breiðholtsbrautar og uppsteypu brúarstöpla brúar yfir Breiðholtsbraut, auk gerðar hljóðmana við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut.
Þá hafa Veitur nánast lokið vinnu við lagningu Suðuræðar II ásamt tengingu við Suðuræð I við Völvufell, en mikilvægt er að ljúka þessu áfanga til að auka öryggi miðlunar á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Lausum jarðefnum sem til falla vegna framkvæmdanna hefur verið ekið í fyrirhugaðan Vetrargarð Reykjavíkurborgar þar sem þau nýtast við uppbyggingu á nýju skíðasvæði við Jafnasel. Áætlað er að vinnu við fyllingar og landmótun ljúki í október.
Í apríl síðastliðnum var bílaumferð færð á framhjáhlaup þar sem unnið er við gerð nýrra undirganga undir Breiðholtsbraut á móts við Völvufell. Áætlað er að ljúka byggingu undirganganna og frágangi Breiðholtsbrautar yfir þau í nóvember og í kjölfarið verður umferð þar yfir færð í fyrra horf.
Þá hefst vinna við nýja göngubrú yfir Elliðaár við Dimmu innan skamms. Hlé var gert á framkvæmdum í sumar vegna laxveiðitímabilsins en í vor var lokið við að steypa undirstöður og stöpla fyrir brúna.
Áætluð verklok Arnarnesvegar eru haustið 2026.
Framkvæmdirnar heyra undir Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en í honum felst m.a. metnaðarfull uppbygging á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040.