23. ágúst 2023
Fram­kvæmd­ir vegna Arnar­nesvegar að hefjast

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók fyrstu skóflustungu á gröfu að framkvæmdum vegna Arnarnesvegar fyrr í dag. Um er að ræða þriðja áfanga Arnarnesvegar, milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Áætluð verklok eru haustið 2026.

„Það er ánægjulegt að framkvæmdir á Arnarnesvegi séu hafnar því þessi nýja leið mun létta á umferð við Vatnsendaveg og stytta ferðatíma fólks. Auk þess munu undirgöng, brýr og göngu- og hjólastígar verða mikil samgöngubót og stórt umferðaröryggismál fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur,“ sagði Sigurður Ingi, þegar hann hafði tekið fyrstu skóflustunguna.

Í verkinu felst lagning 1,9 km vegkafla frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut, tvö hringtorg, tvenn undirgöng, tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og samtals 2,5 km göngu- og hjólastígar. Markmið framkvæmdanna er að auka umferðaröryggi, stytta ferðatíma og létta á umferð við Vatnsendaveg.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkur, Kópavogs, Betri samgangna ohf., Veitna og Mílu. Verktakar eru Loftorka og Suðurverk. Eftirlit er í höndum VSB.

Verkið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, þar sem markmiðið er m.a. að stuðla að auknu umferðaröryggi, hagkvæmum, greiðum og skilvirkum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Sigurður Ingi Jóhannsson,  innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Sigurður Ingi, innviðaráðherra, tók fyrstu skóflustungu vegna framkvæmda við Arnarnesveg.

Sigurður Ingi, innviðaráðherra, tók fyrstu skóflustungu vegna framkvæmda við Arnarnesveg.