Verksamningur vegna landfyllinga og sjóvarna tengdum byggingu brúar yfir Fossvog var undirritaður í dag. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Guðgeir Freyr Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Gröfu og grjóts, skrifuðu undir samninginn í húsakynnum Vegagerðarinnar. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á allra næstu dögum en áætluð verklok eru 1. nóvember 2026.
Um tímamótasamning er að ræða því verkið markar upphaf framkvæmda vegna byggingar Fossvogsbrúar, sem er fyrsta stóra framkvæmdin í Borgarlínuverkefninu. Brúin verður ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum, auk forgangsaksturs lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs. Hún mun tengja saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavíkur með afgerandi hætti.
Tilkoma brúarinnar verður bylting fyrir þau sem kjósa vistvæna samgöngumáta á svæðinu, auk þess að stytta vegalengdir og stuðla að því að draga úr umferðarálagi á vegum. Áætlanir gera ráð fyrir að 10 þúsund manns muni ferðast daglega um Fossvogsbrú.
Verkið var boðið út 6. nóvember á síðasta ári á Evrópska efnahagssvæðinu og bárust fjögur tilboð, þar af þrjú undir áætluðum verktakakostnaði. Grafa og grjót, sem sérhæfir sig á sviði jarðvinnu, lagði fram lægsta tilboðið sem var um 70% af áætluðum verktakakostnaði.