Umferð verður hleypt á fjögurra kílómetra kafla nýs Suðurlandsvegar frá Selfossi í átt að Hveragerði í sumar. Framkvæmdir við annan áfanga Suðurlandsvegar er á áætlun en verkinu á að ljúka á næsta ári. Samhliða er unnið að því að klára Ölfusveg við Hveragerði með byggingu brúar yfir Varmá.
Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.
„Framkvæmdir hafa gengið nokkuð vel og við erum heldur á undan áætlun þrátt fyrir erfiðan vetur. Þannig ætlum við okkur að hleypa umferð á helminginn af veginum, frá Kirkjuferjuvegi og austur á Selfoss í byrjun júlí,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson, verkstjóri hjá ÍAV en kaflinn er um fjögurra kílómetra langur.
Útboðskaflinn allur liggur um land sveitarfélaganna Árborgar og Ölfuss og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km). Tvö stærri vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Til framkvæmdanna teljast einnig bygging fjögurra brúarmannvirkja, tveggja undirganga og tveggja reiðganga auk breytinga á lagnakerfum veitufyrirtækja. Hringvegur verður byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegar.
Búið er að ljúka fjölmörgum verkþáttum. Til dæmis er hringtorgið við Biskupstungnabraut að mestu tilbúið að sögn Ágústar. Þá er búið að malbika einn fjórða af veginum frá Þórustaðanámu og að hringtorginu. Verið er að steypa undirgöng við Þórustaðanámu og unnið að veginum frá Ingólfsfjalli vestur að Kirkjuferjuvegi.
„Við erum líka að steypa undirstöðuveggi brúar og undirganga við Kotströnd og erum búnir að steypa báðar brýrnar yfir Gljúfurholtsána bæði á Hringveginum og á Ölfusveginum. Hjáleiðin við Gljúfurholtsá á Hringveginum verður stytt um miðjan maí, þá malbikum við þar yfir og breytum umferðinni. Þá minnkar ónæði vegfarenda aðeins.“
Búið er að setja flest ræsi í nýja veginn og báðum reiðgöngum hefur verið komið fyrir. Nú er unnið að því að setja á styrktarlög og undirbúa burðarlög svo hægt sé að leggja malbik. Búið er að ganga frá flestum lögnum og leiðslum en eitt af flækjustigum verksins var að samþætta breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja. „Þetta er nefnilega ekki bara einföld vegagerð heldur heilmikil færsla á hitaveitu, vatnsveitu og háspennustrengjum. Við höfum þurft að taka niður loftlínu og setja háspennustrengi í staðinn, færa ljósleiðara og slíkt. Einnig þurft að setja reiðgöng og reiðstíga. Þetta er því talsvert mikil framkvæmd önnur en hefðbundin vegagerð sem venjulega er í dreifbýlinu,“ segir Ágúst.
Stór partur af framkvæmdinni fyrstu mánuðina var að setja farg á vegsvæðið, enda eru laus jarðlög á svæðinu, sérstaklega mýrarjarðvegur sem er allt að 8 m þykkur. Fergja þurfti slík svæði í ákveðinn tíma áður en hægt var að hefja eiginlega vegagerð. Allt sig er nú búið og verktakinn hefur fjarlægt mestan hluta fargsins. „Við höfum flutt um 70 þúsund rúmmetra af farginu austur í Hellismýri sem er byrjun á framkvæmd við nýja Ölfusárbrú. Þar er því nú verið að vinna í sigi og leggja farg þar á,“ lýsir Ágúst en allt umframmagn efnis í framkvæmdinni á Suðurlandsvegi fer í fyllingar að vegi fyrir nýja Ölfusárbrú.
Ágúst segir ekkert óvænt hafa komið uppá í framkvæmdinni. Veturinn hafi haft óveruleg áhrif á verkframvinduna svo og covid. „Við sluppum alveg við flensuna þangað til í vetur og nú hafa allir nema tveir veikst en flestir fengu væg einkenni og því hefur þetta ekki haft meiri áhrif en hefðbundin flensa.“
Ágúst segist finna fyrir miklum velvilja, sérstaklega frá íbúum í Ölfusi og á Selfossi. „Eini vandi okkar, sem raunar allir verktakar eiga við að etja, er þessi hraðakstur í gegnum vinnusvæðin þar sem við þurfum að taka hraðann niður. Þetta getur verið hættulegt fyrir okkur og vegfarendur mættu alveg gefa okkur þessar tuttugu, þrjátíu sekúndur sem þeir spara með þessum hraðakstri.“
Í nóvember á síðasta ári var boðið út verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Hveragerði: Ölfusvegur um Varmá. Það er nýbygging um 780 metra langs vegar frá gatnamótum Sunnumerkur og Dalsbrúnar í Hveragerði að gatnamótum Ölfusvegar við Ölfusborgir austan Varmár. Stærstur þáttur í því verki er bygging nýrrar brúar á Varmá norðan Suðurlandsvegar. Einnig verður lagður reiðstígur undir brúna. Loftorka Reykjavík sér um framkvæmd verksins. Áætlað er að verkinu ljúki í haust.
Inni í verkinu eru eftirfarandi vegaframkvæmdir:
Þessi grein birtist í 3. tbl. Framkvæmdafrétta 2022 sem er á leið til lesenda. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.