Franz Sigurjónsson meistaranemi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands hefur undanfarnar vikur unnið að meistaraverkefni sínu í húsakynnum Vegagerðarinnar í Garðabæ. Markmið verkefnisins er þróa nýja tengingu milli forsteypts stöpulveggjar og staðsteypts sökkuls til að lágmarka og stytta framkvæmdatímann á byggingarstað. Verkefnið er unnið sem meistaraverkefni í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands í samstarfi við Vegagerðina, BM Vallá og Vistu verkfræðistofu.
„Það er frábært að fá að vinna að svona raunverulegu verkefni og komast upp úr skólabókunum,“ segir Franz sem hefur undanfarnar vikur unnið að meistaraverkefni sínu í vinnusal Vegagerðarinnar í Suðurhrauni 3 í Garðabæ. „Hér er gott að vera, frábær mannskapur, góð aðstaða og fullt af fólki sem hefur aðstoðað mig,“ lýsir hann.
Franz hefur smíðað tvö prófstykki í 62% skala og naut hann ráðgjafar og aðstoðar frá bæði brúarvinnuflokkum og vitaflokki Vegagerðarinnar. „Þau sem hafa aðstoðað mig mest eru Fjölnir Már Geirsson, Sveinn Þórðarson, Ingvar Hreinsson, Þorgeir Ingi Haraldsson og Þorbirna Mýrdal Björgvinsdóttir,“ segir Franz en meistaraverkefni hans er unnið undir handleiðslu handleiðslu Bjarna Bessasonar, prófessors við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og Ólafs Sveins Haraldssonar, forstöðumanns rannsóknadeildar Vegagerðarinnar. „Það var einmitt Ólafur sem bauð mér að vinna að þessu verkefni hér hjá Vegagerðinni en hann hefur kennt mér upp í HÍ.“
Prófstykkin voru flutt til BM Vallá í vikunni. Þar verða þau steypt og síðan prófuð á spennigólfi í VR-III byggingu Háskóla Íslands sem hýsir rannsóknaraðstöðu Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands. Fyrra prófstykkið verður útfært eins og um staðsteypta útfærslu sé að ræða en það síðara með nýju tengingunni. Prófstykkin verða svo borin saman til að athuga hvort nýja tengingin sé jafn góð eða betri en staðsteypt útfærsla sem notuð er í dag.
Og hvað tekur við hjá Franz? „Svo taka við skrif, gagnavinnsla og vörn á verkefninu næstu önn,“ svarar hann en Franz segir þó ekki skilið við Vegagerðina því hann hefur ráðið sig í sumarvinnu á hönnunardeild Vegagerðarinnar í Garðabæ.