18. júlí 2024
Fólki fjölgar – umferð allra ferða­máta eykst

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um nærri 130 í hverri einustu viku áranna 2022 og 2023. Eða um ríflega 13 þúsund manns þessi tvö ár. Ferðum í bíl eða á annan hátt fjölgaði í takt við það eða um ríflega 42 þúsund ferðir á dag þar af meira en 30 þúsund í bíl, sem ökumaður eða farþegi. Ferðum annara ferðamáta fjölgaði líka á þessu tímabili, sé tekið mið að nýjustu ferðavenjukönnuninni. Aðrir samgöngumátar eru vel nýttir og sérstaklega má sjá aukningu í strætóferðum í þeim mælingum sem til eru. 

Mánaðarlega birtast fréttir á vef Vegagerðarinnar um umferðartölur sem sýna að umferð bíla er sífellt að aukast á höfuðborgarsvæðinu. En hvað veldur og hvað er að gerast með aðra samgöngumáta?

Fólksfjölgun 2022 og 2023 

Árið 2022 fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu um 6.685 eða að meðaltali 129 manns á viku og árið 2023 var það 6.460 eða 124 manns á viku að meðaltali, samtals 13.145. Þessi aukning nemur 5,5% á tveggja ára tímabili.  Áhrif af brottflutningi Grindvíkinga er ekki farið að gæta í þessum tölum.  

Þess má geta að einnig hefur verið töluverð aukning í fjölda íbúa í sveitarfélögunum í kringum höfuðborgarsvæðið sem getur einnig haft töluverð áhrif á umferð innan þess.  

Ferðavenjukönnun 2022 

Samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var á höfuðborgarsvæðinu árið 2022, fer hver manneskja á höfuðborgarsvæðinu í 3,2 ferðir á dag að meðaltali. Meðalfjöldi ferða hefur fækkað frá síðustu könnunum og verður áhugavert að sjá hvort sú þróun helst í næstu könnun.  Skipting ferðamáta þessara ferða er sýndur í töflu 1. 

Tafla 1: Skipting ferðamáta 2022 (allar ferðir)
Ferðamáti
Skipting
Bíll
58%
Farþegi í bíl
14%
Strætó
5%
Hjól
5%
Gangandi
15%
Annað (rafhlaupahjól)
4% (2%)
Samtals
100%*

Séu notaðar ofangreindar forsendur úr ferðavenjukönnun fyrir þá aukningu íbúa sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu og þeim skipt eftir ferðamátum má sjá þær viðbótarferðir sem búast mætti við að sjá hjá öllum samgönguinnviðum.  Tafla 2 setur þessar tölur fram fyrir bæði 2022 og 2023. Tafla 3 sýnir svo skiptingu milli samgöngumáta.  

Tafla 2: Heildaraukning ferða á dag fyrir árin 2022 og 2023
Ferðir
2022
2023
Fjöldi nýrra íbúa
6.685
6.460
Meðalfjöldi ferða
3,2
3,2
Heildarferðir
21.392
20.672
Tafla 3: Heildaraukning ferða á dag árin 2022 og 2023 eftir ferðamátum
Ferðamáti
2022
2023
Alls
Bíll
12.407 
11.990 
24.397 
Farþegi í bíl
2.995 
2.894 
5.889 
Strætó
1.070 
1.034 
2.103 
Hjól
1.070 
1.034 
2.103 
Gangandi
3.102 
2.997 
6.099 
Annað (rafhlaupahjól)
749 (375) 
724(362) 
1.472(736) 
Samtals
21.392 
20.672 
42.064 

Eins og sjá má af töflunum hér að ofan mætti búast við töluverðri aukningu af umferð á vegum höfuðborgarsvæðisins sem er eingöngu vegna fjölgunar íbúa innan höfuðborgarsvæðisins. Ofan á þessar tölur væri hægt að bæta þeim sem búa í námunda við höfuðborgarsvæðið og svo ferðamenn sem margir hverjir ferðast um landið á bílaleigubíl.  

Umferð í Ártúnsbrekku. Mynd: Vilhelm Gunnarsson

Umferð í Ártúnsbrekku. Mynd: Vilhelm Gunnarsson

Raunaukning 2022 og 2023 

Þó svo að vel sé fylgst með umferð bíla og margir teljarar séu á ýmsum göngu- og hjólastígum er ekki alltaf svo einfalt að beintengja aukninguna sem við erum að sjá við það sem búast mætti við.  

Þrír teljarar Vegagerðarinnar hafa verið notaðir til að skoða umferð bíla. Þeir eru staðsettir á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar, á Reykjanesbraut við Dalveg og á Vesturlandsvegi (ofan Ártúnsbrekku).  Samtals yfir þessa þrjá teljara jókst umferð á virkum dögum um 11.556 bíla frá byrjun árs 2022 til lok árs 2023. Þessir teljarar ná að sjálfsögðu ekki yfir alla umferð en vegna staðsetningu þeirra má gera ráð fyrir að mjög lítið sé um tvítalningu, þ.e.a.s. ekki er gert ráð fyrir að sami bíll fari yfir fleiri en einn af þessum teljurum í sömu ferð. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir að um það bil 47% þeirrar aukningar í umferð sem búast mætti við fari í gegnum þessa þrjá teljara.  Teljararnir ná yfir umferð sem er að koma úr einhverjum af ytri byggðum höfuðborgarsvæðisins og ná því ekki yfir aðra umferðaraukningu sem er að gerast í innri byggðum.  

Upplýsingar eru til um fjölda innstiga í strætó sem hafa verið notaðar til að áætla daglega aukningu í fjölda innstiga fyrir árin 2022 og 2023. Árið 2022 jókst fjöldi innstiga á virkum dögum um 5.035 miðað við árið 2021 og árið 2023 jókst fjöldi innstiga um 4.545 miðað við árið 2022, samtals aukning frá 2021 er því  9.580 innstig á dag. Þess má þó geta að árið 2021 var mikið um takmarkanir á ferðum fólks vegna aðgerða til að hefta útbreiðslu COVID og er því samanburðurinn á milli 2022 og 2023 áreiðanlegri þegar kemur að því að meta aukningu á notkun strætó.   

Aukning í daglegum fjölda innstiga árið 2023 er langt umfram það sem gera mætti ráð fyrir ef miðað er við skiptingu ferðamáta í ferðavenjukönnuninni. Ríflega fjórum sinnum fleiri ferðir eru farnar með strætó daglega en ferðavenjukönnunin gefur til kynna. Spyrja má hverju sætir með þessar niðurstöður hvort ferðavenjur hafi breyst mikið eða hvort að könnunin sé ekki að ná yfir alla þá hópa sem búa á höfuðborgarsvæðinu og fróðlegt verður að sjá hvernig þessar tölur koma út í næstu ferðavenjukönnun. 

Varðandi fjölda gangandi og hjólandi, þá eru teljarar til staðar á mörgum stígum en þar sem þeir ná ekki yfir alla umferð virkra ferðamáta og töluvert er um að teljarar séu bilaðir í lengri eða skemmri tíma er erfitt að gera nákvæma grein fyrir fjölda gangandi og hjólandi á höfuðborgarsvæðinu og hvernig sú breyting samsvarar ferðavenjukönnuninni.  

Hins vegar má sjá úr tölunum að fyrir árin 2022 og 2023 það hefur verið aukning um samtals 26% í gangandi um helstu teljara og aukning um samtals 6% í þeim sem hjóla yfir þá. Þess má þó geta að árið 2022 virðist sem að færri hafi hjólað um borgina en árið 2021 og því er megnið af þessari aukningu vegna mikillar aukningar hjólandi árið 2023.    

Að lokum má til með að nefna notkun rafhlaupahjóla. Ekki eru til tölur yfir notkun þessa fararmáta sem er í einkaeigu en upplýsingar um leigu rafhlaupahjóla hafa verið gerðar aðgengilegar og benda þessar tölur til að farnar hafi verið að meðaltali 5.300 ferðir á dag árið 2022 og 6.107 ferðir árið 2023. Þetta er aukning um 806 ferðir á dag á milli ára. Rafhlaupahjól eru því í mikilli notkun en spyrja má hvaða ferðamáta þau koma í staðinn fyrir. Líklegt þykir að þessar ferðir hefðu áður fyrr farið með almenningssamgöngum, hjólandi eða gangandi og ólíklegt þykir að rafhlaupahjól séu í miklum mæli að koma í stað bílferða. 

Samantekt 

Ofangreint bendir til að þó að umferð aukist milli ára þá eru aðrir samgöngumátar líka vel notaðir og stöðug aukning er í notkun þeirra umfram það sem búast mætti við.  Í því samhengi má þó sérstaklega draga fram þá miklu aukningu sem hefur orðið á notkun strætó sem er fjórföld á við það sem búast mætti við skv. ferðavenjukönnuninni.  

Vegagerðin mun halda áfram að fylgjast með þróun fólksfjölda og notkun hinna ýmsu samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu.