Samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu formlega fjórar nýjar brýr á Hringveginum (1) föstudaginn 10. september. Athöfnin fór fram á miðri brú yfir Steinavötn, en ásamt þeirri brú voru við sama tækifæri vígðar brýrnar yfir Brunná, Kvíá og Fellsá.
Kvennakór Hornafjarðar söng við þetta tækifæri sem þótti viðeigandi enda hefur kórinn tekið lagið á öllum einbreiðum brúm á svæðinu til að styðja við fækkun þeirra.
Skipulega er verið að fækka einbreiðum brúm bæði á Hringvegi (1) og um landið allt. Árið 1990 voru einbreiðar brýr á Hringvegi hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 í kringum 2006 og 42 árið 2011. Síðan hægðist mjög á slíkum framkvæmdum og aðeins voru breikkaðar eða byggðar nýjar brýr í stað 6 einbreiðra brúa á átta árum.
Með byggingu brúnna yfir Brunná, Kvíá, Fellsá og Steinavötn eru einbreiðar brýr á Hringvegi (1) nú 32 talsins og fækkar enn á næstu árum.
Verið er að byggja þrjár nýjar brýr í stað einbreiðra á Hringvegi og ættu þær því að vera 29 á næsta ári. Þetta eru Jökulsá á Sólheimasandi, Núpsvötn og Hverfisfljót. Þá er í útboðsferli nýr Hringvegur um Hornafjörð en þar fækkar einbreiðum brúm á Hringvegi um þrjár.
Miðað við fjárveitingar til breikkunar brúa á samgönguáætlun 2020-2024 má gera ráð fyrir að framkvæmdir við 3 til 5 brýr til viðbótar fari af stað fyrir árið 2024, Búlandsá, Gjádalsá, Selá í Álftafirði, Hvaldalsá og Krossá á Berufjarðarströnd.
Í dag eru flestar einbreiðar brýr á Hringvegi á Austursvæði eða 26, en gæti fækkað niður í 19 árið 2024 ef áætlanir ganga eftir.
Betur má ef duga skal, sérstaklega á kaflanum milli Skeiðarársands að Höfn í Hornafirði þar sem orðið hefur sprenging í umferð með tilkomu ferðamanna.
Einungis tvær einbreiðar brýr eru á Hringvegi á Norðursvæði Vegagerðarinnar og 4 á Hringvegi á Suðursvæði.
Einbreiðar brýr eru víðar en á Hringvegi en alls eru 663 einbreiðar brýr á landinu.
Í lok árs 2019 voru boðnar út fjórar brýr á Hringvegi; brú yfir Steinavötn í Suðursveit sem er 100 m löng, brú á Fellsá í Suðursveit sem er 47 metrar, brú á Kvíá í Öræfum sem er 32 m löng og brú á Brunná austan Kirkjubæjarklausturs sem er 24 m. Framkvæmdir við þessar brýr hófust vorið 2020 og er þeim nú lokið. Þar með hefur einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkað í 32.
Hér að neðan er nánari lýsing á hverri framkvæmd en Ístak byggði allar brýrnar.
Verkið við Brunná á Hringvegi (1) í Vestur-Skaftafellssýslu fólst í byggingu nýrrar brúar og rifi á eldri brú en framkvæmdir hófust í mars 2020. Nýja brúin er í sömu veglínu og eldri brúin en nokkuð hærri. Sú gamla var byggð 1970 og var steypt bitabrú í tveimur höfum, 24 m löng og 4,8 m breið. Nýja brúin er með 7.800 m lóðréttum háboga og yfirbygging hennar er eftirspenntur biti í einu 24 m löngu hafi. Brúin er 10 m breið en þar af er akbrautin 9 m. Landstöplar brúarinnar eru steyptir og grundaðir á hrauni. Brúarflokkur Vegagerðarinnar sá um byggingu bráðabirgðabrúarinnar sem notuð var meðan á framkvæmdum stóð en hún hefur verið rifin
Verkið við Kvíá í Austur-Skaftafellssýslu fólst í byggingu nýrrar brúar, rifi á gömlu brúnni og gerð um eins km langs vegar beggja megin brúar auk tengivegar að áningarstað ofan vegar og vestan Kvíár. Auk þess var gerður leiðigarður að brúnni. Brúin er í nýrri veglínu, 35 m suðaustan gömlu brúarinnar. Yfirbygging er samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi í einu 32 m löngu hafi. Heildarbreidd brúarinnar er 10 m, þar af er akbrautin 9 m. Landstöplar eru steyptir og grundaðir á 12 m löngum boruðum stálstaurum, samtals 26 stk. undir hvorn landstöpul. Stálstaurar eru innfylltir af steypu eftir borun. Gamla brúin var stálbitabrú með steyptu gólfi á steyptum stöplum alls 38,3 m að lengd. Hún hefur verið rifin.
Brúin yfir Steinavötn eyðilagðist í flóðum haustið 2017 en hún var byggð árið 1964. Brúin var einbreið, 102 m löng steinsteypt bitabrú í sex höfum. Í vatnavöxtunum í lok septembermánaðar 2017, gróf áin undan millistöpli sem við það seig og skemmdi yfirbyggingu. Brúin var í kjölfarið dæmd ónýt. Þurfti að hafa hraðar hendur og byggja bráðabirgðabrú, en það var gert á tæpri viku. Framkvæmdin við Steinavötn fólst í hækkun og breikkun vegar og tengingu við nýja brú á 880 m löngum kafla og byggingu leiðigarða. Nýja brúin er í sömu veglínu og gamla brúin en yfirbygging er steypt eftirspennt bitabrú í fjórum höfum en heildarlengd er 100 m. Brúin er tíu metra breið en þar af er akbrautin níu metrar.
Framkvæmdin við Fellsá fól í sér gerð bráðabirgðavegar og byggingu bráðabirgðabrúar og rif á gömlu brúnni yfir Fellsá. Breikka þurfti veg og gera tengingu við nýja brú yfir Fellsá á 400 m löngum kafla. Brúin er í sömu veglínu og gamla brúin. Yfirbygging nýju brúarinnar er steypt eftirspennt bitabrú í tveimur höfum en heildarlengd er 47 m. Brúin er 10 m breið, akbrautin er 9 m og bríkur eru hálfur metri til hvorrar handar. Stöplar brúarinnar eru steyptir og grundaðir á klöpp. Gamla brúin var rifin í upphafi framkvæmda.