Slæmt veður er í kortunum fyrir helgina, sérstaklega seinnipartinn á sunnudag og fram á mánudag. Búast má við að veður geti haft áhrif á færð á vegum landsins, ef spár ganga eftir. Líkur eru á að færð á vegum verði þung og jafnvel komi til lokana.
Vegfarendur eru því hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og skoða færð á vegum á umferdin.is, upplýsingavef Vegagerðarinnar, áður en farið er af stað, ekki síst ef ætlunin er að aka á milli landshluta. Upplýsingar eru uppfærðar reglulega á umferdin.is .
Gangi veðurspáin eftir gæti komið til lokunar í Öræfasveit en líkur eru á að á þeim slóðum verði veðrið verst aðfaranótt sunnudags. Einnig gæti komið til lokana á Fjarðarheiði og mögulega Fagradal og á Vatnsskarði eystra. Þá gæti færð spillst á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Vegurinn um Dynjandisheiði gæti lokast með stuttum eða engum fyrirvara. Ófært er um Öxi og Breiðdalsheiði.