Umferðin í nýliðnum september á Hringveginum reyndist nærri fjórum prósentum meiri en í september fyrir ári síðan. Umferðin eykst mest á Suðurlandi. Búast má við að umferðin í ár aukist um sjö prósent sem er töluvert mikil aukning á einu ári.
Milli mánaða 2022 og 2023
Nýtt met var sett í umferðinni, í september, yfir 16. lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi. Alls fóru að jafnaði tæplega 105 þúsund ökutæki á sólarhring, yfir sniðin 16, í heild. Þessi fjöldi er 3,9% meiri en fór yfir þessi sömu snið, í þessum sama mánuði árið 2022.
Mest jókst umferð yfir mælisnið á Suðurlandi eða um 8,3% en minnsta var aukningin um við höfuðborgarsvæðið eða um 2,3%.
Af einstaka mælisniðum, jókst umferðin mest um mælisnið á Hvalsnesi í Lóni, eða um 14,1%, en minnst jókst umferðin í Kræklingahlíð, norðan Akureyrar, en þar er áætlaður 1,0% vöxtur.
Uppsöfnuð umferð frá áramótum
Þegar allt tímabilið er skoðað, frá áramótum, hefur umferðin aukist um öll svæði, mest um Suðurland eða um 14,2% en minnst um og við höfuðborgarsvæðið eða um 6,5%.
Umferð eftir vikudögum
Ef allt tímabilið, frá áramótum til septemberloka, er skoðað þá hefur umferðin aukist í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á mánudögum, eða um 11,0%, en minnst á sunnudögum, eða um 5,1%.
Umferð um helgar hefur aukist, að jafnaði, um 6,6% en um 8,8% á virkum dögum.
Horfur út árið 2023
Miðað við þá aukningu, sem átt hefur sér stað, það sem af er ári, og hvernig umferðin hegðar sér að jafnaði, í einstaka mánuðum, má nú búast við að umferðin verði um 7% meiri, en hún var árið 2022, í þessum sömu sniðum.