4. júní 2024
Enn eykst umferð­in á Hring­vegi

Umferðin í nýliðnum maí mánuði jókst um ríflega fimm prósent frá sama mánuði fyrir ári á Hringveginum og er það í fyrsta sinn sem meira en 100 þúsund ökutæki fara um mælisniðin 16 í maí. Þetta er nokkuð mikil aukning en heldur minni en fyrri mánuði þessa árs. Umferðin frá áramótum hefur nú aukist um 6,3 prósent.

Umferð milli mánaða
Umferðin, í nýliðnum mánuði,  jókst um 5,3%, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þetta er all nokkur aukning þótt hún hafi verið aðeins minni en búast hefði mátt við miðað við fyrstu 4 mánuði ársins. Það var slegið nýtt umferðarmet í maí mánuði, fyrir umrædd mælisnið, og í fyrsta sinn fer meðal ökutækjafjöldi á sólarhring yfir 100 þúsund á sólarhring í maí.

Mest jókst umferð um teljarasnið sem eru í grennd og á höfuðborgarsvæðinu eða 6,7% en samdráttur varð í umferð um teljarasnið á Austurlandi, sem nam 1,6%.

Af einstaka mælistöðum, er það að frétta, að þá jókst umferð mest um Geitháls, sem telja verður óhefðbundið að svo umferðarmikið snið í grennd við höfuðborgarsvæðið leiði umferðaraukningu, en 4,6% samdráttur mældist yfir mælisnið á Mývatnsöræfum.

Frá áramótum
Nú hefur umferð aukist um 6,3%, frá áramótum, borin saman við sama tímabil á síðasta ári.

Mest hefur umferð aukist á og í grennd við höfuðborgarsvæðið, sem telja verður óhefðbundið, miðað við fyrri ár, en minnst hefur umferð aukist um Norðurland eða um 0,5%

Umferð eftir vikudögum
Eins og mælingar undarfarin ár hafa sýnt þá er umferðin gjarnan mest á föstudögum, og er engin breyting á því, en síðan hafa nokkrir vikudagar skipst á að vera með minnstu umferðina og það sem af er ári hefur umferðin verið minnst á laugardögum.

Horfur út árið 2024.
Nú þegar fimm mánuðir eru liðnir af árinu stefnir í að umferðin geti aukist um 7% miðað við síðasta ár.  Gangi sú spá eftir yrði það tvöfalt meiri aukning en í meðalári.