2. nóvember 2023
Enn eitt metið í umferð­inni á Hring­vegi

Umferðin á Hringveginum heldur áfram að aukast. Hún jókst í október um rúm 6 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þessi mikla aukning skýrist líklega að einhverju leyti af því að færð var almennt góð. Frá áramótum hefur umferðin á Hringvegi aukist um rúm átta prósent sem er mjög mikil aukning.

Milli mánaða
Nýtt met var sett í umferð yfir 16. lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í október, en umferðin reyndist 6,2% meiri en í sama mánuði á síðasta ári, sem einnig var met mánður.

Umferðin jókst mjög svipað í öllum landssvæðum en mest um Vesturland eða um 8,6% en minnst í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 4,6%.

Fyrir einstaka talningarstaði mældist mesta aukningin yfir teljara á Mývatnsöræfum.

Skýring á mikilli aukningu, nú í október, kann að vera sú að færð á vegum var afar góð í mánuðinum svona heilt yfir.

Uppsöfnuð umferð frá áramótum
Núna hefur umferð aukist um 8,1%, frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Er þetta met aukning miðað við árstíma, ef frá er talin aukningin eftir Covid-19 árið 2020.

Umferð eftir vikudögum
Frá áramótum hefur umferð vaxið mest á mánudögum, eða um 10,5%, en minnst á sunnudögum, eða um 6,6%.  Almennt hefur umferð vaxið um 8,3% á virkum dögum en um 7,2% um helgar.

Vegna tengsla hagvaxtar og umferðar gæti meiri vöxtur í umferð, á virkum dögum gefið vísbendingu um aukin umsvif í þjóðfélaginu.

Mest er ekið á föstudögum og minnst á laugardögum.

Horfur út árið 2023
Þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu, stefnir í að umferð geti aukist um 7,5% miðað við síðasta ár. En veðurfarið mun hafa mikil áhrif á hver endanleg niðurstaðan verður.

Þar sem síðasta ár var met ár í umferðinni, yfir umrædd talningasnið, dugar bara lítil aukning til þess að nýtt met verði sett í umferð á Hringvegi á árs grundvelli.

Umferðin eftir mánuðum

Umferðin eftir mánuðum

Umferðin samanlögð

Umferðin samanlögð