Gamla Angróbryggjan á Seyðisfirði sem dregur nafn sitt frá hinu sögufræga Angróhúsi verður endurbyggð á næstu mánuðum. Bryggjan verður nánast í upprunalegri mynd, byggð úr harðviði sem fenginn er úr sjálfbærri skógrækt og þannig með afar lágt kolefnisspor.
Endurbygging bryggjunnar hófst formlega 8. september 2022. Gamla bryggjan var upprunalega reist í kringum árin 1945 til 1947. Hún er úr furu, er um 50 m á lengd og 9 m á breidd með 7 m viðlegudýpt.
Hafnadeild Vegagerðarinnar gerði ástandsskoðun á bryggjunni í mars 2021 og kom þá í ljós afar bágborið ástand hennar. Sérstaklega var suðurendi bryggjunnar illa farinn en hann skemmdist nokkuð í aurskriðunum sem féllu í desember 2020.
Nýja bryggjan verður úr harðviði og verður byggð á sama stað. Stærð bryggjunnar verður svipuð og hún er í dag. Þegar tekin var ákvörðun um hvers konar bryggju skyldi byggja á þessum stað voru nokkur atriði sem skiptu máli. Þar sem fjörðurinn er mjög djúpur á þessum stað var til dæmis ekki hægt að nota stálþil og því komu aðeins staurar til greina sem undirstöður. Þá skipti það einnig Múlaþing nokkru máli að halda í upprunalegt útlit bryggjunnar enda eru þrjár aðrar trébryggjur á svipuðum slóðum í svipuðum stíl.
Bygging nýrrar bryggju var boðin út sumarið 2022 af verkkaupa sem er hafnarsjóður Múlaþings. Héraðsverk átti lægsta tilboðið upp á 146 m.kr. Guðmundur Guðlaugsson, einn þekktasti bryggjusmiður á Íslandi, mun sjá um bryggjusmíðina. Verktakarnir Landsverk og Kranar ehf. munu einnig koma að framkvæmdinni.
Efnið sem notað er í bryggjusmíðina kallast Greenheart harðviður en bæði staurar og burðarvirki verða úr því efni. Farið var í útboð á efninu árið 2021 og var fyrirtækið Gilmour & Aitken frá Skotlandi með besta tilboðið en það hefur yfir 150 ára reynslu af sölu og framleiðslu á harðviði.
Greenheart timbur kemur frá Gvæjana í Suður Ameríku og kemur allt úr sjálfbærri skógrækt. Angróbryggjan verður þannig fyrsta timburbryggjan á Íslandi sem er í heild unnin úr timbri sem fengið er úr sjálfbærri skógrækt og þannig með minna kolefnisfótspor en annars.
Héraðsverk hóf framkvæmdir í september og hingað til hefur verið unnið við rif á gömlu bryggjunni og niðurrekstur nýrra staura. Þá hefur verktakinn einnig unnið að því að fjarlægja gamla Angróhúsið sem stóð við bryggjuna en það varð fyrir miklu tjóni í óveðri í september. Það hafði áður staðið af sér skriðurnar 2020 og verið notað sem geymslu- og sýningarhúsnæði fyrir Tækniminjasafn Austurlands eftir þær hamfarir.
Húsið var byggt árið 1880 af Otto Wathne, sem oft er kallaður faðir Seyðisfjarðar. Það var í fyrstu kallað Engros, sem þýðir verslun, en með tímanum þróaðist nafn hússins í Angró. Á sínum tíma var húsið notað undir síldarverkun, verslun og íbúð og var í raun vagga stórveldis Wathne og nátengt fyrra síldarævintýrinu á Íslandi. Til stendur að reisa þetta sögufræga hús á nýjum stað í bænum.
Áætluð verklok á byggingu bryggjunnar eru sumarið 2023. Vegagerðin hefur umsjón með verkinu en bryggjan mun nýtast ýmsum skipum, meðal annars litlum skemmtiferðaskipum.
Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 7. tbl. 2022 nr. 722. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.