19. desember 2024
Endur­byggður Gjögur­viti vísar sjófar­endum veginn

Gjögurviti hefur verið endurbyggður en vitinn féll í óveðri þann 15. desember á síðasta ári. Vitinn er kominn í fulla notkun og búnaðurinn, þar með talið vitaljósið, nýr radarviti og rafmagnsbúnaður vitans er í beinni vöktun hjá Vegagerðinni.

Gjögurviti var reistur á járngrind þar sem hann stóð yst á Gjögurtá við Hákarlavog, norðan við Reykjafjörð syðri í Húnaflóa, sem er syðsti fjörður Hornstranda. Vitinn var fyrst reistur árið 1921 og var 24 metrar á hæð. Endurbyggða vitabyggingin er nú 24 metra hátt þrífætt, óstagað stálgrindarmastur, sem stendur á þremur steypustöplum.

Tilgangur vitans er að leiðbeina sjófarendum með vita fyrir siglingar um Reykjarfjörð og siglingar á milli Reykjarfjarðar og Norðurfjarðar, en einnig að lýsa upp með geiraljósi óhreinan sjó og skerjótt svæðið fyrir framan Reykjanesið. Vitinn gefur einnig gott viðmið fyrir staðsetningu, ásamt Selskersvita, fyrir miðbik Húnaflóans ef leiðsögutæki skipa verða fyrir útfalli úti á flóanum. Endurbyggði Gjögurvitinn er nú einnig ratsjárviti fyrir skiparatsjár og sendir frá sér bókstafinn T í mors-stafrófinu fyrir skip sem eru útbúin ratsjám sem senda út rafeindabylgjur með örbylgjuvakatækni.

Hvítt og rautt til að sjást betur

Mastrið er málað í hvítu og vitarauðu til skiptis til að auka sýnileika þess í dagsbirtu. Gamli gashylkjaskúr vitans er einnig málaður vitarauður, þar sem  vitabyggingar eru dagmerki fyrir siglingar og þurfa að vera vel aðgreinanlegar frá umhverfi sínu.

Gamli Gjögurvitinn féll í hvassviðri í desember í fyrra en ástand járngrindar vitans var orðið afar bágborið. Vegna aldurs var vitabyggingin og ljósbúnaður friðað en ef mannvirki falla, sem eru eldri en 100 ára, flokkast þau sem fornleifar. Þar af leiðandi þurfti leyfi frá Minjastofnun til að fjarlægja brakið. Þegar leyfið var í höfn síðastliðið sumar fjarlægði starfsfólk Vegagerðarinnar brak úr vitanum til förgunar. Ljóshúsið sjálft var flutt til Vegagerðarinnar á Hólmavík og enn á eftir að ákveða hvað verður gert við það. Allar líkur eru þó á að það fái framhaldslíf því margir hafa sýnt því áhuga.

Ljóshúsið er íslensk smíði, framleitt á sínum tíma í Vélsmiðjunni Hamri. Ljóshús af sömu gerð eru á Svörtuloftavita á Snæfellsnesi og Ingólfshöfðavita, suður af Öræfajökli.

Vegagerðin hefur lagalega skyldu til að halda vitum landsins sem eru í eigu íslenska ríkisins eins og þeim er lýst í vitaskrá Íslands og því lá mikið við að koma nýjum vita upp fyrir veturinn.

Verktaki var Kríutangi ehf, og var þetta 60. mastrið sem hann reisir.

Gjögurviti. Mynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Gjögurviti. Mynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Gjögurviti. Mynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Gjögurviti. Mynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson